Segir „subbulegar alhæfingar“ í ræðu Katrínar

Bjarni Harðarson.
Bjarni Harðarson.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksstjórnarfundi Vinstri grænna á Hólum í gær, markar tímamót að mati Bjarna Harðarsonar, sem var upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í tíð Jóns Bjarnasonar. Fram að þessu hefur varaformaður flokksins talað fyrir sátt innan flokksins en nú dregur hún flokksmenn í dilka. Við sem höfum gagnrýnt ESB-ferli ríkisstjórnarinnar erum þar heldur ómerkilegir einsmálsmenn, skrifar Bjarni á bloggsíðu sína.

„Þar er ekki mitt að dæma en frekar hefði ég kosið að Katrín svaraði þeirri málefnalegu og heiðarlegu gagnrýni sem hefur komið um ferlið heldur en að fara í dilkadrátt af þessu tagi. Ef til vill er viðkvæmni þessi tilkomin vegna þess að formaður VG í Skagafirði hafði orð á að forystan yrði að athuga sinn gang,“ skrifar Bjarni.

Orðræða varaformannsins um að ESB-andstæðingar fari í manninn en ekki boltann verður ögn skringileg í ræðu sem hefur það að keppikefli að fara með næsta „subbulegum alhæfingum“ í alla þá menn sem hafa leyft sér að vera ósammála ESB-vegferð ríkisstjórnarinnar, skrifar Bjarni.

„Það ég veit hafa ESB-andstæðingar innan VG unnt einstökum ráðherrum flokksins þess að vera með sína prívat aðdáun á Evrópusambandinu. Þvert á móti höfum við mörg stutt t.d. bæði umhverfis- og menntamálaráðherrana með ráðum og dáð þrátt fyrir umtalsverðan skoðanamun í þessu einstaka máli. En við höfum af einurð gert kröfu um að stefnu flokksins sé fylgt. Nú er það úthrópað sem hinn stærsti glæpur. 

Með ræðu sinni hefur Katrín Jakobsdóttir blásið hressilega á allar hugmyndir manna um að forystan hafi í hyggju að endurmeta ESB-ferlið og ESB-sinnar geta andað léttar. Og Vinstri hreyfingin - grænt framboð hefur hafið sinn kosningaundirbúning,“ skrifar Bjarni.

Frétt mbl.is: „Mitt svar er NEI“

mbl.is