Systkinin samtals 882 ára

Á dögunum bárust fréttir af níu systkina hópi á Sardiníu sem talinn er sá elsti í heimi, en samanlagt hafa systkinin lifað í 818 ár. Systkinin hafa formlega verið skráð á heimsmetalista Guinnes. Ljóst er að höfundar listans hafa ekki kembt íslenskar sveitir af mikilli natni því hér á landi má finna hóp ellefu systkina sem samtals eru 882 ára og skjóta þau því systkinunum á Sardiníu rækilega ref fyrir rass. Í gær var svo sögð frétt af því á mbl.is  í sumar fögnuðu Olsen-systkinin í Rituvík í Færeyjum því að samanlagður aldur þeirra er þúsund ár.

Sveitalífið ljúft

Systkinin eru úr Austur-Barðastrandarsýslu og eru níu þeirra alsystkini, en tvö samfeðra hinum. „Það var fínt að alast upp í svona stórum systkinahópi,“ segir Sigfús Gunnarsson, eitt systkinanna. Hann er sá níundi í röðinni. „Ég er aftarlega í röðinni þannig að elstu bræður mínir voru fluttir að heiman þegar ég fór að muna eftir mér,“ segir Sigfús. Hópurinn skiptist í tvær dætur og níu syni. Faðir systkinanna hét Gunnar Jónsson, fæddur 1896 á Króksfjarðarnesi og átti hann níu börn með Sólrúnu Helgu Guðjónsdóttur og tvö með Jóhönnu Stefaníu Guðjónsdóttur. Að sögn Sigfúsar var móðir hans, Sólrún, mikið kjarnakvendi. „Það er auðvitað mikið álag að ala níu börn og halda heimili af þessari stærð, sérstaklega fyrir konu í sveit sem líka þarf að sinna ýmsum bústörfum,“ segir Sigfús. „Mamma var sem betur fer mjög heilsuhraust, ég man varla eftir að henni yrði nokkurn tímann misdægurt,“ segir Sigfús. Hann ber uppvexti í sveitinni vel söguna. „Þetta var áhyggjulaust líf og ljúft, fyrir okkur krakkana að minnsta kosti,“ segir hann. Systkinin gengu í farskóla. „Þá var skólinn haldinn til skiptis á bæjum í sveitinni, heima og á þremur öðrum bæjum,“ segir Sigfús og nefnir að hann hafi byrjað að ganga í skólann 10 ára gamall, þá læs og skrifandi eins og tíðkaðist á þeim tíma.

Þrír Halldórar, tveir Guðjónar

Í systkinahópnum bera þrír nafnið Halldór, einn að millinafni, og tveir nafnið Guðjón, en að sögn Sigfúsar eru nöfnin sótt aftur í ættir. Systkinahópurinn hefur að mestu leyti haldið sig á Suðvesturlandi en flest þeirra eru búsett í Reykjavík. Þau starfa við ólíka hluti. „Elstu bræður mínir, Ólafur og Guðjón, gerðust bændur, Skúli varð kennari og við Halldór fórum í Samvinnuskólann,“ segir Sigfús.

Tólf sváfu í baðstofunni

Þrátt fyrir að einhver systkinanna hafi verið farin að heiman þegar Sigfús var barn var heimilið engu að síður fjölmennt.

„Í uppvexti mínum voru á heimilinu sex til sjö börn, og svo voru líka móðuramma mín og afi inni á heimilinu auk tveggja móðursystra,“ segir Sigfús. Því voru um 14 manns á heimilinu þegar mest lét. Að sögn Sigfúsar var oft þröng á þingi.

„Ég fæddist og ólst upp í baðstofu að fornum sið. Þar sváfu flestallir heimilismeðlimir, nema pabbi og mamma,“ segir hann. „Það var þó alltaf gott samkomulag og engin meiriháttar rifrildi,“ segir Sigfús. „Það var alltaf nógur matur fyrir alla, þótt stundum hafi úrvalið verið heldur einhæft, mikið var um saltað kjöt og fisk,“ segir Sigfús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert