Snilldin stekkur fram (myndir)

Eðvarð heitinn Sigurgeirsson ljósmyndari skráði um áratuga skeið sögu Akureyrar og nærsveita í myndum. Á 150 ára afmæli bæjarins er við hæfi að efna til sýningar á nokkrum vel völdum myndum úr digru safni hans á mbl.is (sjá syrpu með tæplega 40 myndum hér neðst í greininni) en greinin og myndirnar birtust fyrst í Sunnudagsmogganum 26. ágúst.

Hann áttaði sig manna best á því, hvar sögulegir atburðir voru að gerast, og var yfirleitt þangað kominn með rétt tæki á réttum tíma. Þannig tókst honum að varðveita frá gleymsku og glötun ærið marga minnisverða atburði, sem ella hefðu hvergi verið til nema í stopulu, skammvinnu og ótraustu minni manna. Vegna árvekni hans og vakandi áhuga eigum við nú fjölda ljóslifandi heimildamynda um sögulegar stundir, merka menn, breytta staðhætti eða þjóðhætti og hverfandi eða gróandi þjóðlíf, jafnvel daglegt líf, sem annars væru nú hvergi til. Þetta verður aldrei ofmetið eða fullþakkað.“

Með þessum orðum minntist Sverrir Pálsson, fyrrverandi skólastjóri á Akureyri, frænda síns Eðvarðs Sigurgeirssonar ljósmyndara að honum gengnum í Morgunblaðinu sumarið 1999.

Sverrir sagði ennfremur: „Gildi þessa þáttar í ævistarfi Eðvarðs sést ef til vill best á því, að ekki verður svo gefin út bók um mannlíf, listir, störf eða stofnanir á Akureyri á síðustu áratugum, að myndir hans teljist ekki bráðnauðsynlegar til glöggvunar bókarefninu, sem án þeirra yrði fábreytilegra, óljósara og á allan hátt dauflegra. Það má líka ganga að því vísu, að í yfirgripsmiklu myndasafni hans séu alltaf til myndir, sem við eiga og að gagni koma, myndir, sem segja mikla sögu.“

Birti okkur dýrð öræfanna

Eðvarð var ekki síður maður óbyggðanna. „Kjarval er sagður hafa gefið okkur löndum sínum sýn á fegurð hraunsins, en Eðvarð átti mikinn þátt í að birta okkur dýrð öræfanna, víðáttur þeirra, frelsi og hreinleika,“ segir Sverrir í minningargrein sinni. „Til þess notaði hann ýmist ljósmyndavélina eða kvikmyndavélina. Fjallaklasinn kringum Súlur, Kerlingu og Tröllafjall öðlaðist nýtt líf í gegnum linsur hans. Vesturöræfi, sem fáir höfðu séð, stigu fram fyrir sjónir okkar með beljandi fljótum og fossum, blátæru víðerni og ljónstyggum hreindýrahjörðum fyrir atbeina hans. Afkima og eldstöðvar Ódáðahrauns, fornar og nýjar, svipti hann dulúð sinni og þjóðsagnahulu, léttur upp á fótinn og með myndavélina sína að vopni, en fáir menn voru kunnugri en hann á þeim slóðum. Hvar sem hann kom og fór hafði hann opið og næmt auga fyrir íslenskri náttúru og var laginn að fanga hana á filmu, enda átti hann gríðarlegt safn fagurra landslagsmynda.“

Jón Hjaltason, sagnfræðingur á Akureyri, segir ljósmyndir Eðvarðs hafa einstakt gildi fyrir bæinn. „Þær eru ómetanleg heimild og segja alveg ótrúlega sögu. Eðvarð var ekki aðeins frábær ljósmyndari, heldur var starfsævi hans óvenjulöng. Það er útilokað að segja sögu Akureyrarbæjar á tuttugustu öldinni án aðkomu þeirra bræðra, Eðvarðs og Vigfúsar, sem rak ljósmyndastofuna á undan honum. Fáir kaupstaðir á Íslandi búa að eins miklu myndefni og Akureyri.“

Að dómi Jóns hafði Eðvarð afburðagott auga fyrir myndum. „Maður sér snilldina hreinlega stökkva fram og dáist að tilfinningunni sem hann hefur haft fyrir viðfangsefnum sínum. Það kemur svo sem ekki á óvart, hin listræna taug er sterk í ættinni. Eðvarð Sigurgeirsson er sannkölluð gersemi.“

Jón segir Minjasafnið á Akureyri eiga heiður skilinn fyrir að hafa gert myndasafn Eðvarðs aðgengilegt, ekki bara fræðimönnum heldur öllum almenningi í þessu landi. Hann segir menn hafa verið sæmilega ötula að sýna myndir Eðvarðs en að ósækju mætti gera meira af því.

Hinn norðlenski Grieg

Eðvarð Sigurgeirsson fæddist á Akureyri 22. október 1907 og var skírður í höfuðið á Edvard Grieg sem þá var nýlátinn en faðir hans hafði mikið dálæti á hinu mikla norska tónskáldi. Hann vann ungur við almenna byggingarvinnu og múrverk en lærði síðan ljósmyndun hjá Vigfúsi bróður sínum og tók við ljósmyndastofu hans er Vigfús flutti suður yfir heiðar. Rak Eðvarð stofu sína á Akureyri í um fimmtíu ár og var einn þekktasti ljósmyndari landsins.

Eðvarð var einnig einn af brautryðjendum í íslenskri kvikmyndagerð og liggur eftir hann mikið safn kvikmynda. Heimildarkvikmynd um björgun áhafnar Geysis á Vatnajökli er líklega þekktust mynda Eðvarðs ásamt kvikmyndinni „Á hreindýraslóðum“, en einnig eru í safni hans myndir úr flugsögu Íslands, heimildir um ýmsa menningar- og listviðburði ásamt fjölda ferðaþátta um óbyggðir landsins.

Eðvarð var snemma liðtækur íþróttamaður, keppti í frjálsum íþróttum og knattspyrnu og var einn af stofnendum KA ásamt því að teikna merki félagsins sem enn er notað.

Eiginkona Eðvarðs var Marta Jónsdóttir húsmóðir og eignuðust þau tvö börn, Egil og Elsu Friðriku.

Eðvarð lést árið 1999, 91 árs að aldri.

Myndasöfn Eðvarðs eru nú eign barna hans. Kvikmyndasafnið er varðveitt í Kvikmyndasafni Íslands, en ljósmyndaafnið á Minjasafninu á Akureyri, þar sem Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar, og afabarn Harðar bróður Eðvarðs, hefur unnið að skráningu þess og gert aðgengilegt til frekari notkunar. Egill og Elsa Friðrika hafa góðfúslega veitt Morgunblaðinu leyfi til birtingar valinna mynda úr ljósmyndasafninu til að heiðra minningu föður þeirra á 150 ára afmæli Akureyrarbæjar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: