„Ekki óskaniðurstaða mín“

Magnús Kristinsson.
Magnús Kristinsson. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Niðurstaðan eins og hún blasir við núna er ekki mín óskaniðurstaða,“ segir Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, um söluna á útgerðarfélaginu Bergur-Huginn til Síldarvinnslunnar. Salan felur í sér fullt skuldauppgjör við Landsbankann.

Magnús var með umsvifamikinn rekstur fyrir hrun, en hann átti m.a. Toyota-umboðið um tíma. Hann átti einnig stóran hlut í Landsbankanum.

„Helst hefðum við í fjölskyldunni viljað fá að reka áfram okkar útgerð hér í Vestmannaeyjum. Ég hef allt frá haustinu 2008 glímt við miklar skuldir við Landsbankann sem að mestu urðu til við kaup á hlutum í bankanum. Ég var þar ein margra fórnarlamba grófrar markaðsmisnotkunar eins og síðar hefur komið á daginn. Ég hef streist við að halda félaginu og standa skil á skuldunum við bankana en hlýt nú að horfast í augu við að það mun ekki takast. Ég á því engan annan kost en að selja hluti mína i félaginu enda blasir við að áform um aukna gjaldheimtu af útveginum mun skerða rekstrarhæfi útgerðarfélaga og þá ekki síst þerra minni.

Samhliða sölunni nú hefur farið fram fullt skuldauppgjör við Landsbankann. Það er með eftirsjá en stolti sem ég skil við fyrirtækið núna og þá góðu samstarfsmenn sem ég hef átt þar. Félagið er í góðum rekstri og gerir út tvö af bestu skipum íslenska fiskveiðiflotans í dag. Ég óska nýjum eigendum velfarnaðar.“

Kaupsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. BH hefur yfir að ráða aflaheimildum sem nema tæpum 5.000 þorskígildistonnum á yfir standandi fiskveiðiári.


Útgerðarfélagið BH gerir út tvo togbáta í dag, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444. Hjá félaginu starfa 35 manns, flestir til sjós. BH rekur ekki landvinnslu og hefur
stærstur hluti aflans farið á markað erlendis.

Með sölunni lýkur útgerðarsögu Magnúsar Kristinssonar sem hefur staðið óslitið síðustu 40 ár í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina