Úraræningi áfrýjaði dómi

Úraræningjar í héraðsdómi.
Úraræningjar í héraðsdómi. mbl.is/Sigurgeir

Einn þeirra þriggja manna sem dæmdir hafa verið fyrir vopnað rán í Michelsen úrsmiðum 17. október í fyrra hefur áfrýjað dómi sínum til Hæstaréttar. Hinir tveir una fimm ára fangelsisvist sem þeir voru dæmdir til að afplána fyrir sinn þátt í ráninu.

Mennirnir þrír, Marcin Tomasz Lech, Grzegorz Marcin Nowak og Pawel Jerzy Podburaczynski játuðu allir aðild sína að ráninu en neituðu að hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun þess. Sá síðastnefndi, Podburaczynski, var þó sá eini sem ákvað að áfrýja dómi sínum.

Við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sögðu verjendur Nowaks og Podburaczynski, að Lech hefði skipulagt ránið og í raun þvingað þá til að fremja það. Verjandi Podburaczynskis sagði að Lech hefði stillt honum upp við vegg. Hann hefði tengsl við undirheimana í Póllandi og Podburaczynskis því ekki þorað annað. „Ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sýna fram á annað en að hann hafi verið peð í verknaðinum og ber að miða refsingu hans við það,“ sagði Sigmundur Hannesson, verjandi Podburaczynskis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert