Vilja að Ögmundur biðjist afsökunar

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fram kemur í ályktun frá stjórn Ungra vinstri grænna að hún harmi fréttir af brotum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á jafnréttislögum, en eins og mbl.is hefur fjallað um komst kærunefnd jafnréttismála að því í vikunni að brotið hefði verið gegn lögunum við skipan í embætti sýslumanns á Húsavík.

„Afsakanir innanríkisráðherra í fjölmiðlum eru honum og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði til minnkunar og sérstaklega ömurlegt að það komi ítrekað fyrir í stjórnartíð VG að ráðherrar brjóti jafnréttislög,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Þá segir að það sé skilyrðislaus krafa UVG að ráðherrar flokksins fari að lögum í orði og á borði og axli ábyrgð gerist þeir sekir um mistök í starfi. „Innanríkisráðherra ber að biðjast afsökunar á framgöngu sinni í þessu máli og leiðrétta mistök sín.“

Ályktunin í heild:

Stjórn Ungra vinstri grænna harmar fréttir sem nú berast þess efnis að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög við ráðningu í embætti sýslumanns á Húsavík. Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að settur sýslumaður á Akranesi hafi verið hæfari en hinn ráðni í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur. Þó ekki kæmi til að konur eru nú í minnihluta í embættum sýslumanna og bæri að haga ráðningu eftir því, væru umsækjendur jafnhæfir, eins og innanríkisráðherra líkt og innanríkisráðherra túlkar úrskurð nefndarinnar.

Afsakanir innanríkisráðherra í fjölmiðlum eru honum og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði til minnkunar og sérstaklega ömurlegt að það komi ítrekað fyrir í stjórnartíð VG að ráðherrar brjóti jafnréttislög. Opinberar stöðuveitingar eiga ekki að ráðast af huglægu mati sitjandi ráðherra fremur hæfnismati og lögum í landinu eða þá þeirri stefnu sem hreyfingin, í hvers nafni ráðherra situr, berst fyrir. Ung vinstri græn gera þá skilyrðislausu kröfu að ráðherrar sem sitja í nafni flokksins fari að lögum bæði í orði og á borði og geti axlað ábyrgð gerist þeir sekir um mistök í starfi. Innanríkisráðherra ber að biðjast afsökunar á framgöngu sinni í þessu máli og leiðrétta mistök sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert