Fé drapst á leið í slátrun

mbl.is/Árni Torfason

Níu kindur drápust þegar fjárflutningabíll með yfir tvö hundruð lömb fór út af veginum skammt frá bænum Sölvanesi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði í gærkvöldi. Féð var allt frá einum og sama bænum og var á leið í slátrun þegar óhappið átti sér stað.

Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki gaf vegkantur sig þegar ökumaður flutningabílsins fór út í vinstri kantinn til að taka beygju. Bíllinn, sem var fulllestaður, lenti á toppnum og er hann nokkuð skemmdur eftir óhappið. Ekki er þó talið að bílstjóranum hafi orðið meint af.

Bændur í nágrenninu náðu að smala fénu saman eftir óhappið en níu kindur drápust strax.

mbl.is

Bloggað um fréttina