Umfjöllun Teits eða upprifjun?

Sigríður Rut Júlíusdóttir og Teitur Atlason í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Sigríður Rut Júlíusdóttir og Teitur Atlason í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Andri Karl

Færslur bloggarans Teits Atlasonar um Kögun og Gunnlaug M. Sigmundsson voru til umfjöllunar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmaður Gunnlaugs sagði Teit hafa birt á annan tug ærumeiðandi færslna en lögmaður Teits að á bak við hverja einustu fullyrðingu megi finna staðreyndir.

Málið er í raun mjög einfalt. Teitur skrifaði á vefsvæði sitt færslu eftir í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hélt ræðu um Icesave á Alþingi, en Sigmundur er sonur Gunnlaugs.

Gunnlaugur ákvað að stefna Teiti fyrir eftirfarandi hluta færslunnar:


„Höfum í huga að fjölskylda hans á allan sinn auð undir pólitískum tengslum. Faðir Sigmundar var þingmaður í nokkra mánuði og kom sér þannig fyrir að hann hafði aðgang að innherjaupplýsingum sem varðaði fyrirtækið Kögun sem var ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða. Sá lét konuna sína bjóða í fyrirtækið og vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató, var fjármögnun auðveld.

Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið. Gunnlaugur varð milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa. Hann tapaði reyndar megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum…“.

Fyrir dómi í morgun sagði Teitur að umrædd skrif hefðu tengst umræðu um Icesave-málið. „Sigmundur Davíð var ítrekað að spyrða andstæðinga þess að semja við að vera í einhverri elítu. En ég hef alltaf upplifað hann sem hluta af elítu, og þess vegna skrifaði ég þessi ummæli.“

Nánar spurður af lögmanni sínum út í tildrögin að færslunni sagði Teitur að umfjöllun um Kögun eigi sér skírskotun í góða og heilbrigða samfélagsumræðu. „Það er gott að rifja upp mál í fortíðinni sem tengjast viðskiptum og því þegar viðskipti og stjórnmál tengjast.“

Lýsti líðan sinni með myndlíkingu

Gefin var út framhaldsákæra í málinu vegna færslu sem Teitur setti á vef sinn í ágúst 2011. Stefnt var vegna þessa hluta færslunnar:

„Tilgangi hans er í raun náð með því að setja á loft hamar sem hann hikar ekki við að berja fólk með, gangi það (að hans mati) of langt í gagnrýni sinni á hann sjálfan og þá gerninga þegar þjóðaeigum var komið undir „rétta menn“.

Teitur var einnig spurður út í þessi ummæli fyrir í morgun og sagðist hann þarna vera lýsa líðan sinni og hvernig það er að vera stefnt fyrir dóm. Stuttu áður en hann skrifaði færsluna hafi Gunnlaugur kallað hann galinn mann í fjölmiðlum.

Rangfærslur leiðréttar með viðtali

Teitur hafnaði því alfarið að skrif hans hafi verið ærumeiðandi. Hann hafi eingöngu rifjað upp það sem kæmi fram í grein Agnesar Bragadóttur, blaðamanns Morgunblaðsins, um Kögunarmálið á árinu 1998. Gunnlaugur var meðal annars spurður út í þessa grein í morgun.

Gunnlaugur sagðist hafa verið forviða á greininni þegar hann sá hana. Hins vegar hafi hann ekki beint verið ásakaður um lögbrot en allir hlutir gerðir tortryggilegir. Hann hafi farið á fund ritstjóra Morgunblaðsins vegna greinarinnar og haft gögn undir höndum sem sýndu fram á að farið hafi verið með rangt mál í greininni. Gunnlaugur sagði Matthías Johannessen ritstjóra þá hafa sagt, að það hafi ekki hent Morgunblaðið að fara með slíkar rangfærslur nema einu sinni áður. Var Gunnlaugi boðið upp á leiðréttingu eða stórt viðtal þar sem sannleikurinn kæmi í ljós.

Viðtalið birtist helgina eftir og sagði Gunnlaugur það hafa jafngilt afsökunarbeiðni blaðsins og lét hann því þar við sitja.

Gekk lengra en áður var gert

Erla Skúladóttir, lögmaður Gunnlaugs, vísaði til þess í málflutningi sínum að rangfærslur í grein Agnesar hafi verið leiðréttar. Gunnlaugur hafi hreinsað nafn sitt á sínum tíma en Teitur hafi vakið upp umræðuna að nýju og gengið mun lengra í staðhæfingum sínum en nokkru sinni hafi verið gert áður.

Meðal þess sem Gunnlaugur sé sakaður um er að hafa beitt innherjasvikum og pólitískum tengslum. Það sé háttsemi sem er refsiverð að lögum og nemur þungum refsingum. Gunnlaugur hafi aldrei verið kærður, ákærður eða dæmdur. Því sé um grófar ærumeiðingar um að ræða. Og tjáningarfrelsi bloggara sé ekki án ábyrgðar frekar en annarra manna.

Eftir að Gunnlaugur hafi ákveðið að leita réttar síns vegna ærumeiðinganna hafi Teitur svo færst allur í aukanna og birt fleiri ærumeiðandi færslur. Þá hafi hann einnig í fyrsta skipti lagst í skoðun á Kögunarmálinu. Hann hafi leitað að réttlætingu á fyrstu ummælum sínum en það hafi ekki tekist enda séu þau alröng. Meðal annars sé rangt að Kögun hafi verið ríkisfyrirtæki, og þar af leiðandi ekki í einkavæðingaferli, auk þess sem Gunnlaugur hafi aldrei átt hlutabréf í Flugleiðum, Icelandair eða Icelandair Group. Sala á hlutum í Kögun hafi einnig átt sér stað tveimur árum áður en hann varð þingmaður, og því vandséð hvernig pólitísk tengsl hafi nýst þar.

Þá sagði Erla að grafalvarlegar ásakanir væru í færslum Teits. Þar sé meðal annars látið að því liggja að Gunnlaugi sé sama um sigur í málinu, málshöfðunin sé aðeins til að knésetja bloggara til að hætta umfjölluninni. Vegna þessa hafi framhaldsákæra verið gefin út, en í síðari færslunni gefi Teitur í skyn að Gunnlaugur sé illvísin og hiki ekki við að beita ofbeldi til að þagga niður í umræðu um sig.

Meðal annars til þess að undirstrika að málið snúist um grófar ærumeiðingar hafi Gunnlaugur ákveðið að falla frá miskabótakröfu. Það sé til að sýna að málið snúist ekki um persónu Teits eða meintan fjárhagsmun málsaðila. Með því fái umfjöllum um ærumeiðingarnar meira vægi. Gunnlaugur fór áður fram á þrjár milljónir króna í miskabætur.

Ómerkingarkrafan of víðtæk

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Teits, sagði engar ómálefnalegar upphrópanir felast í umfjöllun Teits um Kögunarmálið, engin gífuryrði, enginn æsingur. Þar sé aðeins rifjuð upp opinber umfjöllun um málið og hvergi sagt ósatt.

Hún sagði alls konar fólk hafa tjáð sig um Kögunarmálið fyrir utan Teit. Nefndi hún þar Egil Helgason sem hafi sagt í pistli sínum að Gunnlaugur væri „spillingarmaður“. Þá hafi Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, einnig fjallað um Gunnlaug en hún vildi ekki hafa uppnefni í pistli hans eftir fyrir dómi.

Það sem þó sé lykilatriði og muni líklega ráða niðurlögum málsins sé stefnan sjálf. Ómerkingarkrafan sé of víðtæk og ekki tiltekið hvað sé meiðyrði. „Er það meiðyrði að segja að Gunnlaugur hafi verið þingmaður?“ Óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá enda ekki dómara að velja úr dómkröfunni. Það væri á skjön við réttarfarsreglur. „Dómari getur ekki lagt dóm á málið í þessum búningi sem það er í.“

Ekki meiri hnekkir en áður

Ef hins vegar málinu verði ekki vísað frá þá sagði Sigríður Rut að mannorð Gunnlaugs geti ekki beðið meiri hnekki en þegar er orðið vegna fyrri umfjöllunar um sama efni. Auk þess séu ummæli sem „sjokkera“ og móðga einnig vernduð með ákvæðum um tjáningarfrelsi. Málið hafi ennfremur átt erindi við almenning og af þeirri ástæðu einni megi ekki takmarka tjáningarfrelsið.

Hún minntist meðal annars á umhverfið þegar umfjöllun Teits hófst. Þjóðin hafi gengið í gegnum siðferðisskoðun eftir efnahagshrunið og Hæstiréttur hafi meðal annars notað þá röksemd til að útvíkka tjáningarfrelsið.

Teitur hafi einnig sýnt fram á nægilegt sönnunargildi orða sinna, þó svo engin sönnunarbyrði hvíli á honum. „Hann þarf í mesta lagi að sýna fram á það, að áður hafi verið fjallað um málið. Það er ekki gerð krafa um að ummæli sem þessi séu sönnuð.“

Í ummælum Teits sé eingöngu að finna gildisdóma auk þess sem ef einstaklingur er í góðri trú verða ummæli ekki bönnuð, jafnvel þó síðar komi í ljós að þau séu ekki rétt.

Mogginn lýgur aldrei

Í seinni ræðum sagði Erla fátt. Hún mótmælti þeirri túlkun Sigríðar Rutar að hvert orð þurfi að vera meiðyrði, umræddar klausur séu í heild sinni ærumeiðandi. Þá sagði hún: „Mogginn lýgur aldrei nema þegar hann leiðréttir rangfærslur sínar.“

Sigríður Rut ætlaði sér ekki að flytja síðari ræðu, eða andsvör, en þá kallaði dómari málsins hana fyrir. Þar spurði hann hana meðal annars út í endurteknar vísanir í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og hvort hún teldi að íslenskir dómstólar væru ekki í takti við þá.

Hún sagði að staðreyndin væri sú að íslenskir dómstólar væru ekki að ganga nógu langt til að uppfylla skyldur ríkisins í tjáningarfrelsismálum. Hún haldi því ekki fram að ganga eigi lengra en hefðbundið sé, en það hafi ekki verið gengið nógu langt og tjáningarfrelsið ekki haft í heiðri. Íslenskir dómstólar eigi að uppfylla þau mörk sem þeir eiga að uppfylla.

Dóms er að vænta á næstu vikum.

Gunnlaugur Sigmundsson og lögmenn hans, Skúli Bjarnason og Erla Skúladóttir, …
Gunnlaugur Sigmundsson og lögmenn hans, Skúli Bjarnason og Erla Skúladóttir, í morgun. mbl.is/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert