Standa með landeigendum á Reykjanesi

Landeigendur á línuleið Blöndulínu 3 í Skagafirði skora á Landsnet að beita ekki landeigendur á Reykjanesi óþarfa þrýstingi í tilraunum sínum til að fá afnotarétt af landi þeirra í ótakmarkaðan tíma fyrir háspennuloftlínur. Þetta kemur fram í áskorun sem þeir hafa sent frá sér.

„Sveitarfélagið Vogar er að vinna að breytingu á aðalskipulagi þar sem ekki er gert ráð  fyrir háspennulínum ofan jarðar sem mun breyta öllum forsendum. Það er ódrengilegt að vera á sama tíma með útsendara til að semja við landeigendur maður á mann og óska beinlínis eftir því að þeir semji í trássi  við vilja sveitarstjórnar. Þá má einnig benda á að nú er að störfum nefnd á vegum atvinnuvegaráðuneytisins (áður iðnaðarráðuneytis) sem er falið að  móta stefnu um lagningu raflína í jörð og skal ráðherra flytja Alþingi skýrslu um störf nefndarinnar fyrir 1. október 2012.

Á meðan ríkisvaldið og sveitarfélagið vinna að því að skerpa sína stefnu er sjálfsagt og eðlilegt að láta af þrýstingi við landeigendur. Sú krafa er orðin hávær að jarðstrengir séu lagðir í stað loftlína og fyrir liggi stefnumörkun um hvaða háttur skuli hafður á, áður en fleiri skref verða stigin. Þá skal líka bent á að til að hægt sé að fara í eignarnám þá þurfa að liggja fyrir ríkir almannahagsmunir sem ekki hefur verið sýnt fram á að séu fyrir hendi. Aðrar leiðir eru færar.

Vakin er athygli á að Landsnet áformar samkvæmt kerfisáætlun að reisa nýjar 220 kV háspennulínur hringinn í kring um landið og ef til vill þvert í gegn um hálendið og um önnur viðkvæm svæði. Almenn notkun er ekki hvatinn að byggingu línanna enda kaupa stórnotendur um 80% af allri raforkuframleiðslu á landinu. Uppbyggingin er í þágu stóriðju og/eða vegna sæstrengs til Evrópu. Bygging loftlína samræmist illa náttúruverndarsjónarmiðum og til stendur að fara með háspennulínur um svæði sem eru án allra mannvirkja en draga mætti verulega úr umhverfisáhrifum með því að leggja línurnar að öllu leyti eða að hluta í jörð. Á það ættum við að stefna,“ segir í áskorun landeigenda í Skagafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert