Hækkunin tengist öðrum störfum

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir eðlilegt að meta í launum framlag og vinnu Björns  Zoëga, forstjóra Landspítalans við önnur störf en hefðbundin forstjórastörf. Hann segir að launahækkunin tengist öðrum störfum Björns en forstjórastarfinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Guðbjarti sem birt er á vef velferðarráðuneytisins.

„Laun Björns Zoëga, forstjóra Landspítala eru ákveðin af kjararáði. Annars vegar tekur kjararáð ákvörðun um grunnlaun og hins vegar fjölda þóknunareininga til að mæta yfirvinnu og álagi sem starfinu fylgir. Með nýorðnum breytingum á launum forstjórans er ekki hróflað við úrskurði kjararáðs hvað það varðar. Í úrskurði kjararáðs um laun forstjóra Landspítala er tekið fram að sérstakar aðgerðir á sviði bæklunarskurðlækninga tilheyri ekki starfi hans sem forstjóra og heyri því ekki undir kjararáð. Fyrir læknastörfin er því greitt sérstaklega og var sá þáttur starfsins aukinn nú í september.

Björn Zoëga hefur frá því að hann tók við starfi forstjóra sinnt sérhæfðum skurðlækningum á Landspítala og gert nokkrar aðgerðir í hverri viku. Í sumar hefur þessi þáttur í starfi Björns aukist nokkuð. Að hluta til eru þetta aðgerðir sem aðrir læknar á Landspítala hafa ekki sinnt. Vert er að benda á að læknar sem eiga að baki langt og afar sérhæft nám verða að eiga þess kost að viðhalda þekkingu sinni og færni. Í tilfellum lækna sem sinna stjórnunarstöðum, líkt og Björn sem skipaður er til fimm ára, snýst þetta um möguleika hans á því að hverfa aftur að hefðbundnum læknisstörfum þegar hann lætur af störfum sem forstjóri.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir eðlilegt að meta í launum framlag og vinnu Björns við önnur störf en hefðbundin forstjórastörf. „Stjórnunarstörf forstjórans hverfa ekki meðan hann sinnir aðgerðum og móttöku sjúklinga. Þessi störf eru mikils virði fyrir sjúkrahúsið og sjúklingana en vinnudagur Björns verður að sama skapi lengri.“

Ráðherra segir óumdeilt að Björn hafi staðið sig vel í erfiðu starfi á erfiðum tímum. Honum hafi tekist að ná utan um rekstur Landspítala og aðlaga hann fjárlögum. „Fram hjá þessu verður ekki litið. Ég vissi að hart var sótt að Birni að taka að sér forstjórastarf hjá stórum og mikils metnum spítala erlendis. Það var mitt mat að óhagkvæmt væri og óskynsamlegt af minni hálfu að skipta um forstjóra við núverandi aðstæður ef hjá því yrði komist. Þess vegna bauð ég Birni að hækka laun hans en jafnframt var miðað við að hann yki vinnuframlag sitt við skurðlækningar á Landspítalanum, “ segir í yfirlýsingu velferðarráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert