Sóknargjöld verði ekki lögð á alla

Alþingishúsið við Austurvöll og dómkirkjan.
Alþingishúsið við Austurvöll og dómkirkjan. Brynjar Gauti

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að íslensk stjórnvöld ættu ekki að leggja á sóknargjöld óháð því hvort viðkomandi er skráður í trúfélag eða kýs að standa utan þeirra. Þá er fundið að því að lífsskoðunarfélög hafi ekki sama rétt til sóknargjalda og trúfélög.

Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti, samkvæmt lögum um sóknargjöld. Ríkissjóður skilar af óskiptum tekjuskatti tiltekinni fjárhæð sem rennur til trúfélaganna. Í ár er upphæðin 701 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri.

Ríkissjóður heldur hins vegar eftir sömu upphæð fyrir þá sem standa utan trúfélaga. Mannréttindanefndin lítur svo á að með því greiði þeir ríkinu sóknargjöld og í nýlegu áliti hennar segir að stjórnvöld ættu að tryggja, að sóknargjöld verði ekki lögð á þá sem standa utan trúfélaga.

Á vefsvæði Vantrúar er vitnað í upptökur af nýlegu aukakirkjuþingi þar sem fóru fram umræður um sóknargjöld. Þar var meðal annars álit mannréttindanefndar SÞ til umræðu og fyrirkomulag innheimtu sóknargjalda hér á landi.

Sú hugmynd var viðruð að trúfélögin gætu sjálf séð um að innheimta sóknargjöldin. Benti þá Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Ölfusi, á að ef fólk færi að hagnast á því að vera ekki í trúfélagi myndi það leiða til þess að enn fleiri skráðu sig úr þjóðkirkjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert