Gunnlaugur ekki beðinn afsökunar að sögn Styrmis

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson mbl.is/Rax

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fjallar í Sunnudagsmogganum í dag um mál Kögunar og Gunnlaugs M. Sigmundssonar. Segir Styrmir að það sé ekkert hæft í því að Morgunblaðið hafi dregið í land með umfjöllun sína um fyrirtækið á sínum tíma. Eins væri það misskilningur að í birtingu viðtals við Gunnlaug, sem gagnrýndur var í þessu tilviki fælist afsökunarbeiðni af hálfu blaðsins, líkt og Gunnlaugur hélt fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vikunni.

„Umfjöllun Morgunblaðsins fyrir tæpum einum og hálfum áratug um breytingar á eignarhaldi á Kögun hf. hefur dregizt inn í umræður um meiðyrðamál, sem er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Af því tilefni er rétt að halda til haga þeirri stóru mynd, sem bjó að baki þeirri umfjöllun.

„Þegar upp komu raddir innan Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum áratugum á erfiðum tímum þess efnis að taka ætti einhvers konar gjald fyrir varnarstöðina í Keflavík, svonefnd aronska, tóku þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson, og Morgunblaðið upp harða baráttu gegn þeim sjónarmiðum og höfðu sigur.

Á níunda áratug síðustu aldar kom hins vegar í ljós, að fámennur hópur manna hafði hagnazt verulega á verktakastarfsemi fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Um það sagði Morgunblaðið m.a. í forystugrein hinn 12. maí 1998: „Á fjórum áratugum varð þróunin sú, að eignaraðild að Sameinuðum verktökum hf. færðist á hendur tiltölulega fámenns hóps manna og erfingja þeirra. Síðar komu bæði samvinnuhreyfingin og íslenzka ríkið að þessari starfsemi, þegar Íslenzkir aðalverktakar voru stofnaðir með sameiginlegri þátttöku þessara þriggja aðila. Á svipuðum tíma og Kögun hf. varð til var orðið ljóst að fámennur hópur manna hafði hagnazt um milljarða á framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli í skjóli einkaleyfis til framkvæmda.“

Nú má auðvitað segja, að það hafi verið barnaskapur að halda að verktakastarfsemin á Keflavíkurflugvelli mundi ekki skapa mikinn gróða, þótt upphaflega hafi verið gengið út frá því, að þær framkvæmdir yrðu á kostnaðarverði og eðlileg þóknun greidd til viðbótar. En þá er að læra af slíkum barnaskap,“ segir Styrmir í grein sinni í dag.

Það var ástæðan fyrir því að þegar Morgunblaðið vorið 1998 fékk vísbendingu um að verið væri að endurtaka þennan leik í skjóli Kögunar hf. sem hafði sérstakan samning við utanríkisráðuneytið um rekstur og viðhald nýs ratsjárkerfis fyrir ratsjárstöðvar varnarliðsins hóf blaðið skoðun á málinu, sem leiddi til birtingar á ítarlegri fréttaskýringu í maímánuði þetta ár um það hvernig eignarhald á þessu félagi hefði þróazt, skrifar Styrmir.

Í greininni fer Styrmir ofan í ritstjórnargreinar sem ritaðar voru á þessum tíma og segir að því fari fjarri, að Morgunblaðið hafi dregið í land með umfjöllun sína á þessum tíma.

„Þvert á móti. Hins vegar voru tvær meginreglur í heiðri hafðar. Færi blaðið með rangt mál var það leiðrétt og beðizt afsökunar á þeim mistökum. Og jafnframt var auðvitað sjálfsagt bæði þá og síðar, að sá sem fyrir gagnrýni varð hefði greiðan aðgang að blaðinu til þess að koma athugasemdum á framfæri og svörum við þeirri gagnrýni.

Á því byggjast auðvitað frjáls skoðanaskipti í lýðræðisríki. En það er misskilningur að í birtingu t.d. viðtals við þann aðila, sem gagnrýndur var í þessu tilviki fælist afsökunarbeiðni af hálfu blaðsins,“ skrifar Styrmir í Sunnudagsmogganum í dag en hægt er að lesa greinina í heild í blaðinu í dag.

Gunnlaugur Sigmundsson og lögmenn hans í héraðsdómi fyrr í vikunni.
Gunnlaugur Sigmundsson og lögmenn hans í héraðsdómi fyrr í vikunni. mbl.is/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina