Hvetur borgarstjórann í Moskvu til að leyfa gleðigöngur

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík hefur skrifað bréf til Sergeys Sobyanin, borgarstjóra í Moskvu. Í bréfinu lýsir Jón Gnarr því yfir að hann vilji deila því með borgarstjóranum hversu jákvæð áhrif Hinsegin dagar og gleðigangan hafi haft á ímynd Reykjavíkur og viðhorf almennings til samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks (LBGT-fólks). Orðið hafi mikil viðhorfsbreyting til batnaðar á Íslandi vegna hátíðarinnar sem sé nú ein stærsta útihátíðin í Reykjavík.

Bréfið er skrifað í tilefni af fréttum um að gleðigöngur samkynhneigðra hafi verið bannaðar  í Moskvu. Hvetur borgarstjórinn í Reykjavík hinn rússneska kollega sinn til að skipta um skoðun og styðja LBGT-fólk í réttindabaráttu þess enda séu það skýlaus brot á mannréttindum að gera upp á milli fólks vegna kynhneigðar.

Í bréfinu segir m.a.: „Gleðigangan hefur valdið viðhorfsbreytingu meðal Reykvíkinga og hefur leitt til framsæknara samfélags – ekki aðeins meðal LBGT-fólks heldur meðal allra Íslendinga. Hátíðin hefur einnig vakið athygli á Reykjavík úti um allan heim sem borg mannréttinda. Íslendingar eru stoltir af því að geta sýnt umheiminum að þeir búa í samfélagi þar sem mannréttindi eru í öndvegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert