Kristján Hinrik jarðaður á föstudag

Kristján Hinrik Þórsson.
Kristján Hinrik Þórsson. mbl.is

Kristján Hinrik Þórsson, íslenski pilturinn sem var myrtur í Bandaríkjunum um helgina, flutti til Oklahoma þegar hann var 10 ára gamall ásamt móður sinni, eldri bróður og yngri systur. Þar var hann kallaðir Henrik. Hann hefði átt að útskrifast úr gagnfræðaskóla í vor, en hann var 18 ára gamall.

Helena Mawby, amma Kristjáns Hinriks, segir að hann hafi verið svolítið margbrotinn persónuleiki. „Hann var mjög listrænn, góður í að teikna og var mikið fyrir að yrkja ljóð, en hann var mjög óöruggur með sig vegna þess að hann stamaði,“ segir Mawby í samtali við fréttasíðuna NewsOn6 í Oklahoma.

Hún segir að hann hafi ort mikið af lagatextum og dreymt um að fara í Oklahomaháskóla eftir útskrift úr gagnfræðaskóla, til að leggja stund á tónlist. Kristján Hinrik var mjög málglaður að sögn ömmu hans. Hann var óhræddur við að tjá skoðanir sínar á hvaða málefni sem er, jafnt stjórnmálum sem fréttum líðandi stundar, og hann var með mjög smitandi hlátur.

„Þegar hann hló þá fóru allir að hlæja. Það hlógu allir með honum,“ er haft eftir Mawby. Hún segir fjölskylduna alla í áfalli. Engan hafi grunað að nokkuð þessu líkt gæti gerst þegar Kristján Hinrik skrapp út í búð ásamt fjölskylduvini til að kaupa gos. „Þetta er svo tilviljanakennt, svo mikill óþarfi, maður skilur ekki hvers vegna.“

Amma hans segir jafnframt að þau séu afar þakklát fyrir þann mikla stuðning sem vinir og skólafélagar Kristjáns Hinriks hafi sýnt þeim. Það hefði komið honum sjálfum á óvart að vita hversu vel hann var liðinn. Fjölskyldan er nú að undirbúa jarðarförina, sem fer fram á föstudag svo að ættingjar frá Íslandi hafi tíma til að komast á staðinn. 

Fram kemur á NewsOn6 að lögreglan leiti enn árásarmannsins og vonist eftir frekari vísbendingum frá hugsanlegum vitnum. John White, maðurinn sem var í bílnum með Kristjáni Hinrik, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í Tulsa í gær. 

QuikTrip bensínstöðin þar sem morðin voru framin.
QuikTrip bensínstöðin þar sem morðin voru framin. mbl.is
mbl.is