Stendur ekki til að hætta við skattinn

Frumvarpið gerir ráð fyrir að virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu …
Frumvarpið gerir ráð fyrir að virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu hækki úr 7% í 25,5%. mbl.is/Styrmir Kári

Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir koma til greina að gefa ferðaþjónustunni lengra svigrúm til að taka á sig hækkun virðisaukaskatts. Hún segir hins vegar að ekki hafi verið rætt um að hætta við hækkun skattsins.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að virðisaukaskattur á hótel -og gistiþjónustu hækki úr 7% í 25,5%. Samkvæmt fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins á skatturinn að taka gildi 1. maí 2013. Hækkun skattsins á að skila ríkissjóði 3,5 milljörðum í tekjur á ársgrundvelli og 2,6 milljörðum á næsta ári.

Fjármálaráðherra tilkynnti í lok síðasta mánaðar að ákveðið hefði verið í samráði við aðila ferðaþjónustunnar að stofna starfshóp um skattlagningu ferðaþjónustugreina og málefni sem henni tengjast.

Oddný var spurð hvort stofnun starfshópsins bæri vott um að ráðuneytið væri að íhuga að hætta við hækkun skattsins. Oddný sagði svo ekki vera. Ráðuneytið hefði átt nokkra fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og þessir fundir hefðu verið gagnlegir. Það kæmi hins vegar til greina „að gefa ferðaþjónustunni meira svigrúm til að innleiða þessar breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert