Fáðu já - vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi

Páll Óskar Hjálmtýsson leikstjóri og einn handritshöfunda, Halla Gunnarsdóttir formaður …
Páll Óskar Hjálmtýsson leikstjóri og einn handritshöfunda, Halla Gunnarsdóttir formaður verkefnastjórnar og Baldvin Zophoníasson framleiðandi sem undirrituðu samninginn. Viðstaddar voru einnig þær Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, Jóna Pálsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Þorgerður Benediktsdóttir frá velferðarráðneytinu og Brynhildur Björnsdóttir. mbl.is

Verkefnisstjórn innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur undirritað samning um styrkveitingu til gerðar stuttmyndar sem ber heitið FÁÐU JÁ ­–um kynlíf og samþykki.

Handritshöfundar stuttmyndarinnar eru Brynhildur Björnsdóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir en Zeta Productions framleiðir myndina.

Vitundarvakningin er hluti af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum. Sáttmálinn leggur þær skyldur á herðar stjórnvalda að beina fræðslu um kynferðislegt ofbeldi að börnum og að þeim sem hafa samskipti við börn í starfi sínu. Stuttmyndin er liður í þessu en í henni verður fjallað á ábyrgan hátt um mörkin milli kynlífs annars vegar og ofbeldis hins vegar.

Allir grunnskólar landsins munu fá afhent eintak af myndinni sem þeir geta fjölfaldað að vild og eftir frumsýningu verður stuttmyndin aðgengileg á veraldarvefnum. Þótt þessum hluta vitundarvakningarátaksins sé beint að grunnskólum er vakin sérstök athygli á því að stuttmyndin mun einnig henta til sýningar og umræðna innan framhaldsskóla.

Verkefnisstjórn hefur þegar undirritað samkomulag við Brúðuleikhús Blátt áfram sem fer með brúðusýningu inn í 2. bekki í öllum grunnskólum landsins. Í október verða haldin landshlutaþing með fulltrúum allra grunnskóla þar sem fjallað verður um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert