Fullt tilefni til bjartsýni og sóknar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína í kvöld.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína í kvöld. mbl.is/Kristinn

Stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hófst með því að minnast þeirra hamfara sem áttu sér stað á Norðurlandi fyrr í vikunni og enn sér ekki fyrir endann á. Þakkaði hún af heilum hug þeim mikla fjölda einstaklinga sem lagt hefðu sitt af mörkum til björgunarstarfanna vegna þeirra og sagðist ennfremur vilja fullvissa heimamenn um að ríkisstjórnin myndi tryggja að allur nauðsynlegur stuðningur yrði veittur.

„Samstaðan og samhjálpin skiptir öllu máli þegar tekist er á við óblíð öfl náttúrunnar. Einmitt þá sýnum við Íslendingar okkar bestu hliðar og þannig munum við einnig sigrast á þeim áföllum sem veðurhamurinn hefur valdið íbúum Norðausturlands á liðnum dögum,“ sagði hún.

Forsætisráðherra ræddi því næst um stöðuna í efnahagsmálum landsins og sagði að þjóðin hefði að undanförnu fundið fyrir batnandi hag eftir þrengingarnar eftir bankahrunið. Þjóðarframleiðsla hefði aukist, störfum fjölgað, kaupmáttur farið vaxandi og lífskjör orðið jafnari sem gert hafi það að verkum að sífellt fleiri hefðu sannfærst um að samfélagið væri á réttri leið.

„Þessi jákvæða þróun hlýtur að vera okkur öllum mikið ánægjuefni – hvort sem við tilheyrum stjórn eða stjórnarandstöðu, enda er í bjartsýni og jákvæðum lífsviðhorfum fólginn ómetanlegur auður fyrir sérhvert samfélag,“ sagði hún.

Sagði Jóhanna fá lönd innan OECD búa við minna atvinnuleysi í dag en Ísland og að engu ríki hefði tekist að minnka atvinnuleysi eins hratt og eins mikið á undanförnum árum. „Á þessu ári hafa orðið til um 4.600 ný störf og ekkert bendir til annars en að framhald verði á lífskjarasókn Íslendinga á komandi árum, ef áfram verður haldið á sömu braut.“ Það væri því fullt tilefni til bjartsýni og sóknar.

Stefnuræða forsætisráðherra í heild

mbl.is