Ánægjulegt að lýsa yfir stuðningi við Ísland

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, heimsótti Ísland í ágúst 2008 …
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, heimsótti Ísland í ágúst 2008 og flutti þá meðal annars ræðu á fundi í ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

„Breski sjálfstæðisflokkurinn hafnar lögmæti valds Evrópusambandsins til þess að setja hvers kyns lagasetningu og þar af leiðandi greiðum við atkvæði gegn öllum slíkum tillögum frá framkvæmdastjórn sambandsins,“ segir Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party), í samtali við mbl.is.

Farage, ásamt átta öðrum þingmönnum flokksins á Evrópuþinginu, greiddu síðastliðinn miðvikudag atkvæði gegn samþykkt lagasetningar um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem Evrópusambandið telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar, en til þess gæti komið að lagasetningunni verði beitt gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar.

„Í þessu tilviki var ennfremur ánægjulegt fyrir okkur að lýsa yfir stuðningi okkar við Íslendinga sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar og við sjálfsagðan og óafsalanlegan rétt íslensku þjóðarinnar til þess að stunda fiskveiðar í eigin efnahagslögsögu,“ segir Farage ennfremur.

Hann bætir því við að þingmennirnir harmi ennfremur tilraunir Evrópusambandsins til þess að tryggja sér ítök á Íslandi í „gegnum samblöndu af fjármunum, diplómatísku ráðabruggi og blygðunarlausum hótunum.“

Samtals greiddu 11 þingmenn á Evrópuþinginu atkvæði gegn lagasetningunni um refsiaðgerðir en 659 atkvæði með henni. Þingmenn Breska sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði gegn lagasetningunni voru auk Farage, Roger Helmer, William Dartmouth, Marta Andreasen, Godfrey Bloom, John Bufton, Derek Roland Clark, Paul Nuttall og John Stewart Agnew.

Þá greiddu franski þingmaðurinn Philippe de Villiers og ítalski þingmaðurinn Magdi Cristiano Allam einnig atkvæði gegn lagasetningunni en þeir tilheyra sama þingflokki á Evrópuþinginu og bresku þingmennirnir.

Hér má sjá hvernig atkvæðagreiðslan fór

mbl.is