„Erum að íhuga frekari refsiaðgerðir“

Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs. SCANPIX

„Ég er auðvitað vonsvikin yfir því að okkur tókst ekki að ná samkomulagi í London. Bæði Noregur og Evrópusambandið hafa verið sveigjanleg og hafa sett fram mörg og uppfærð tilboð. Því miður hafa hvorki Íslendingar né Færeyingar sýnt nokkurn vilja til þess að koma til móts við það af sinni hálfu,“ segir Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, í samtali við mbl.is aðspurð um viðbrögð hennar vegna niðurstöðu ráðherrafundarins í London í byrjun þessa mánaðar þar sem þess var freistað að ná samkomulagi vegna makríldeilunnar.

Berg-Hansen leggur áherslu á að  hún geri ekki athugasemd við það að Ísland eigi lögverndaðan rétt til takmarkaðrar hlutdeildar í makrílstofninum. Vandamálið sé hins vegar að krafa Íslendinga og sú hlutdeild sem þeir hafi tekið sér einhliða sé miklu hærri en hægt sé að réttlæta út frá gengd makrílsins. Hún segir að leiðandi meginregla við að ákvarða eignarhald á fiskistofnum sé að miða við það hversu lengi hann sé í viðkomandi lögsögu að meðaltali á ársgrundvelli og samkvæmt gögnum frá Íslandi sjálfu sé viðveran samkvæmt því ekki nema 5-7%. Einnig sé söguleg veiðireynsla Íslendinga ekki mikil þegar komi að makrílnum.

„Jafnvel þó hluti af makrílstofninum fari í gegnum íslensku lögsöguna í fáeina mánuði þá veitir það ekki Íslendingum rétt til þess að veiða eins mikið af honum og þeir vilja. Ef Evrópusambandið og Noregur hefðu fylgt formdæmi Íslands væri búið að útrýma makrílstofninum núna. Hlutdeild í fiskistofni getur ekki byggst á því hversu mikið sé mögulegt að veiða úr honum með hámarks getu,“ segir Berg-Hansen.

Spurð að því hvort hún telji að frekari viðræður séu líklegar til þess að skila árangri segir hún fundur strandríkjanna 22.-24. október næstkomandi feli í sér annað tækifæri til þess að reyna að finna sameiginlega lausn á deilunni.

„Ég hef ekki tekið neina lokaákvörðun í þeim efnum enn,“ segir ráðherrann spurður að því hvað hún telji að Noregur og Evrópusambandið eigi að gera ef frekari viðræður skila ekki árangri. Spurð að því hvaða hugsanlegu aðgerða norsk stjórnvöld kunni að grípa til gagnvart Íslandi og Færeyjum ef ekki semst segir Berg-Hansen:

„Fyrst vil ég taka það fram að ég held enn í vonina um að hægt verði að komast hjá því að beita refsiaðgerðum. Þess vegna höfðum við Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, frumkvæði að því í júlí að kannað yrði hvort mögulegt væri komast út úr þeirra sjálfheldu sem málið er núna í. Hins vegar, eins og ég hef áður sagt, þá erum við að íhuga frekari refsiaðgerðir og þar á meðal til dæmis viðskiptalegar aðgerðir og frekari aðgerðir tengdar sjávarútvegi. Umfang og eðli frekari aðgerða hefur hins vegar ekki verið ákveðið. En við fylgjumst náið með þeirri vinnu Evrópusambandsins að koma sér upp nýjum leiðum til þess að beita refsiaðgerðum.“

mbl.is