Hanna Birna stefnir á fyrsta sætið í Reykjavík

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Ég mun gefa kost á mér í fyrsta sæti í Reykjavík fyrir komandi þingkosningar verði það niðurstaðan að almennu flokksfólki verði veitt tækifæri til þess að velja á listann í prófkjöri,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, í samtali við mbl.is, spurð um fréttir þess efnis í dag að hún hyggist gefa kost á sér í landsmálin fyrir kosningar til Alþingis næsta vor.

Hvað með fréttir þess efnis að þú stefnir á varaformann Sjálfstæðisflokksins?

„Næsta verkefni er að sjá hvort sjálfstæðisfólk vill nýta krafta mína á Alþingi. Ólöf Nordal er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og verður það fram að næsta landsfundi sem verður ekki fyrr en á næsta ári. Það eru margir mánuðir í það og því finnst mér ekki tímabært að gefa neinar yfirlýsingar um framboð á þeim fundi strax. En ég útiloka ekkert í því sambandi.“

Hver er aðdragandi þess að þú tekur þá ákvörðun að gefa kost á þér í landsmálin?

„Með framboði mínu til formanns í nóvember síðastliðnum þá steig ég auðvitað ákveðið skref í átt að því að segja að ég væri reiðubúin að taka að mér verkefni á vettvangi landsmálanna. Ég er í stjórnmálum til þess að gera gagn, mig langar að vinna í þágu almennings og ég lít svo á að stærsta verkefnið í íslensku samfélagi í dag sé að skapa aðstæður þar sem fólk hafi tækifæri til betra lífs. Mig langar að leggja mitt af mörkum í þeim efnum og ég tel mig gera það best með því að taka þessa ákvörðun.“

mbl.is