Ekki grunur um neitt misjafnt

Rannsókn tæknideildar rannsóknarlögreglunnar á sprengingunni sem varð í fjölbýlishúsi í Ofanleiti í gær heldur áfram í dag en lögreglan vill ekkert gefa upp um hvort einhverjar nýjar upplýsingar hafi fengist í rannsókninni.

Benedikt Lund, varðstjóri á lögreglustöðinni á Grensásvegi, sem hefur umsjón með
rannsókninni, segir að gaskúturinn sem fannst í íbúðinni sé enn í rannsókn. Hann segir að ef kúturinn hafi lekið og rafmagnstæki svo farið í gang myndist aðstæður sem dugi til að valda svo öflugri sprengingu enda skapist mesta hættan þegar rétt blanda af gasi og súrefni sé til staðar. Benedikt segir jafnframt að kúturinn hafi ekki verið tengdur við eldavél og lögreglan hafi ekki grun um neitt misjafnt í tengslum við málið.
Þeir sem annast rannsókn málsins munu funda í dag en óljóst er hvenær frekari tíðinda er að vænta. 

Dvöldu hjá vinum og vandamönnum

Um fimmtán íbúar stigagangsins fengu að bíða í húsakynnum Rauða krossins í Efstaleiti á meðan slökkvilið var að ráða niðurlögum eldsins í gær. Eftir það fengu þeir að sækja nauðsynjar úr íbúðum sínum en fengu ekki að vera í þeim í nótt. Allir höfðu fengið inni hjá vinum og vandamönnum og enginn þurfti því að leita skjóls hjá Rauða krossinum í nótt.

Að sögn Teits Þorkelssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, fengu íbúarnir afhent lesefni um streituröskun og að haft verði samband við þá á næstunni enda komi einkenni streituröskunar oft ekki í ljós strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert