Ekki vísað úr landi

Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar Billi/Brynjar Gunnarsson

Flóttamaður frá Nígeríu, sem dvalið hefur hér á landi í átta mánuði, var ekki sendur úr landi í morgun líkt og til stóð. Þetta kom fram í fréttum RÚV í morgun. Haft var eftir lögfræðingi mannsins, Katrínu Oddsdóttur, að innanríkisráðuneytið hefði gripið inn í gærkvöldi og komið í veg fyrir að manninum yrði vísað úr landi. Ekki hefur náðst í Katrínu vegna málsins í morgun.

Líkt og fram kom á mbl.is í gær var  Samuel Eboigbe Unuko handtekinn af lögreglu í gær og honum tjáð að honum yrði vísað úr landi í dag. Unnusta mannsins segir að hann hafi verið kominn með vinnu og mjög áhugasamur um að búa áfram á Íslandi.

Unuko kom hingað til lands á fölsuðu vegabréfi frá Svíþjóð. Hann hefur dvalið á Fit, gistiheimili í Reykjanesbæ fyrir flóttafólk, síðan. Unnustan, sem er íslensk, segir að nýverið hafi Útlendingastofnun úrskurðað í hans máli og var niðurstaðan sú að það bæri að vísa honum úr landi. Hann kærði úrskurðinn til innanríkisráðuneytisins sem komst að sömu niðurstöðu. Hins vegar hafi Samuel talið að lögfræðingur sinn væri að vinna í málinu og átti ekki von á að sér yrði vísað úr landi með svo skömmum fyrirvara. Samkvæmt því sem lögreglan segir parinu verður Samuel sendur til Svíþjóðar með flugi snemma í fyrramálið.

mbl.is