Er í bráðri lífshættu í heimalandi sínu

Hælisleitendur á Íslandi hafa bent á að verði þeir sendir …
Hælisleitendur á Íslandi hafa bent á að verði þeir sendir úr landi, jafngildi það dauðadómi. Ragnar Axelsson

Lögmaður flóttamanns frá Nígeríu, sem senda átti til Svíþjóðar í morgun, segir það ánægjulegt því verði frestað þar til mál hans verður skoðað betur. Að sögn lögmannsins hefur maðurinn áður sótt um hæli í Svíþjóð en því var hafnað. Hann yrði því sendur þaðan til Nígeríu þar sem segist vera í lífshættu.

Maðurinn hefur fest rætur hér á landi, hann er með vinnu og á íslenska kærustu.

„Við fengum að vita þetta í gærkvöldi og auðvitað eru þetta mjög góð tíðindi,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður flóttamannsins,  Samuels Eboigbe Unuko. Spurð að því í hverju hættan í Nígeríu felist, segist hún ekki geta tjáð sig um það.

„Það átti að vísa honum til Svíþjóðar vegna þess að hann hafði fyrst sótt um hæli þar. Það er í samræmi við Dublinar-reglugerðina sem kveður á um að ef hælisleitendur sækja um hæli á fleiri en einum stað í Evrópu, þá má senda þá aftur þangað sem þeir fyrst sóttu um hæli,“ segir Katrín.

„En þegar hafði verið fjallað um málið hans í Svíþjóð og hann hefði fengið neitun þar. Því er sú ákvörðun að senda hann til Svíþjóðar sú sama og að senda hann beint til Nígeríu, þar sem hann er í hættu að eigin mati. Við vildum því ganga úr skugga um að við værum ekki að senda hann í bráða lífshættu og þess vegna báðum við dómstóla um að fara yfir málið.“

Katrín segir að lögum samkvæmt sé óheimilt að senda fólk úr landi þangað sem það er í hættu. „Hann segir að Svíþjóð sé ekki öruggur staður fyrir sig, þar sem honum hefur verið hafnað þar og verður því sendur til Nígeríu.“

Hefur fest rætur hér á landi

Að sögn Katrínar hefur Unuko fest rætur hér á landi. Hann hefur verið hér í átta mánuði, hann á íslenska unnustu, hann er kominn með vinnu og býr ekki lengur á Fit, gistiheimili fyrir flóttafólk, heldur leigir hann íbúð í Reykjanesbæ.

„Þetta sýnir hvað hann hefur lagt sig fram við að aðlagast. Hann hefur myndað tengsl við land og þjóð og vonandi verður það haft í huga við málsmeðferðina.“

Handtekinn og fékk ekki að tala við neinn

Hún gagnrýnir hvernig staðið er að málum þegar til stendur að vísa fólki úr landi. „Þau eru yfirleitt handtekin. Ég skil að verið sé að reyna að tryggja að fólk hlaupist ekki á brott. En það hlýtur að vera hægt að gera þetta með öðrum hætti. Síminn var tekinn af honum og dótinu hans pakkað niður. Hann fékk ekki að tala við neinn. Honum var meinað að hitta kærustuna sína þannig að hann gæti kvatt hana almennilega.“

Líklega spurning um vikur

Katrín segir að nú verði höfðað dómsmál þar sem farið verði yfir þær ákvarðanir sem hingað til hafa verið teknar í málum Unukos. „Það verður líka skoðað hvort stjórnvöldum hafi yfirsést eitthvað. Ég veit ekki hvað þetta mun taka langan tíma, en líklega verður þetta spurning um vikur, en ekki mánuði og ég er nokkuð viss um að hann fái að vera hérna þar til við erum komin með endanlega niðurstöðu.“

Frétt mbl.is: Ekki vísað úr landi

mbl.is

Bloggað um fréttina