Jóhanna: Dregið hefur úr skattheimtu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að dregið hafi úr skattheimtu í tíð þessarar ríkisstjórnar og að fólk og fyrirtæki héldu nú meiru eftir af tekjum sínum en í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Jóhanna sagði þetta í umræðu um atvinnumál, en umræðuna hóf Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.

Unnur Brá sagði að sterkt atvinnulíf væri forsenda fyrir hagvexti og öflugu velferðarkerfi. Hún sagði áhyggjuefni að í fjárlagafrumvarpinu væru kynnt áform um enn frekari skattlagningu á atvinnulífið. Þrefalda ætti skattlagningu á gistingu. Hækka ætti vörugjöld á matvæli um 800 milljónir og hækka ætti til muna veiðigjald.

Unnur sagði að nýjar tölur Hagstofunnar sýndu að atvinnuþátttaka hefði ekki aukist frá árinu 2010. Störfum hefði því ekki verið að fjölga eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu verið að halda fram. Þetta væri áhyggjuefni.

Sagði skatta á fyrirtæki lága

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að í hruninu hefðu tapast 15.000 störf og þjóðartekjur hefðu lækkað um 13%. Þetta hefði verið það verkefni sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir þegar hún tók við völdum. Nú hefði verið hagvöxtur samfleytt í tvö ár, atvinnuleysi hefði minnkað og kaupmáttur hefði aukist á ný.

Jóhanna talaði um að umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir væru í farvatninu, en hún nefndi ekki hvaða virkjanir væri þar um að ræða, þó eftir því væri gengið.

Jóhanna sagði að ríkisstjórnin hefði sett fram fjárfestingaáætlun sem byggðist á að nýta tekjur af veiðigjaldi til fjárfestinga. Með þessu gjaldi væri hægt að flýta gerð jarðganga um 2-3 ár, byggja nýjan Herjólf og fleira. Jóhanna spurði hvort sjálfstæðismenn ætluðu að hætta við þessi verkefni ef þeir stæðu við yfirlýsingar um að draga til baka hækkun veiðigjalds.

Jóhanna sagði að alþjóðlegur samanburður á skattlagningu fyrirtækja sýndi að óvíða greiddu fyrirtæki lægri tekjuskatt en hér á landi og það sama mætti segja um tryggingagjaldið.

„Á fyrstu sexmánuðum ársins 2012 jókst fjárfesting um 19,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2011. Skattheimtan var einnig meiri í tíð Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun. Árið 2005 og 2006 námu skatttekjur ríkisins 31,5% af landsframleiðslu, en í ár er talan 27,3% og á því næsta enn lægri 27,1%. Staðreyndin er sú að fólk og fyrirtæki halda meiru eftir af sínum tekjum nú en þegar þeir flokkar sem hæsta tala um skattpíningu stýrðu ríkiskassanum,“ sagði Jóhanna.

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á að Jóhanna hefði í ræðu sinni ekkert minnst á hækkun skatta á ferðaþjónustuna. Hann sagði að í ferðaþjónustunni hefði á síðustu árum kviknað ljós og von um að forsendur væru fyrir aukinni fjárfestingu. Ríkisstjórnin hefði ekki getað látið þessa grein í friði og reynt að slökkva þetta ljós með aukinni skattheimtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert