Himnasýning við Elliðavatn

Guðjóni tókst fyrir tilviljun að mynda loftstein þar sem hann …
Guðjóni tókst fyrir tilviljun að mynda loftstein þar sem hann stóð við Elliðavatn. Ljósmynd/Guðjón Stefánsson

„Sýningin á himnum í gærkvöldi var hreint út sagt með ólíkindum,“ segir Guðjón Stefánsson, íbúi í Álfkonuhvarfi í Kópavogi, en honum tókst fyrir tilviljun að ná mynd af loftsteini þar sem hann stóð við Elliðavatn og naut þess að horfa á norðurljósin á heiðum kvöldhimninum.

Guðjón kveðst hafa farið út í gærkvöldi í þeim tilgangi að mynda ljósasýninguna og kom hann sér fyrir á góðum stað við Elliðavatn með útsýni í átt að Grafarholti.

„Ég er svo að taka myndina á þrjátíu sekúndum og þá kemur þessi steinn allt í einu inn,“ segir Guðjón og bætir við að loftsteinninn hafi í fyrstu verið skærhvítur að lit en fljótlega breyttist ásýnd hans yfir í fagurgrænan.

Spurður hvort þetta sé í fyrsta skipti honum tekst að ná mynd af loftsteini, kveður hann já við.

„Ég er sjálfur með sumarbústað og maður situr stundum í pottinum, horfir upp í loftið og sér eina og eina rönd. En það er ekkert í nálægð við þetta og það hljóta fleiri að hafa séð þetta því steinninn var svo rosalega bjartur.“

Segir Guðjón ferð sína að vatninu í gærkvöldi hafa verið ævintýri líkust því auk þess að ná mynd af dansi norðurljósanna og loftsteini á heiðum himni varð hann vitni að því er tignarlegur fiskur stökk hátt til himins.

„Það er bara verst að ég náði ekki mynd af fiskinum líka. Það er svona þegar maður gefur sér tíma til að njóta kyrrðarinnar, þá tekur maður eftir öllu.“

Ólafur Haraldsson sendir okkur þetta myndskeið sem er tekið á sama tíma við Hafravatn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert