Veðurstofan flytur í nýtt húsnæði

Veðurstofa Íslands fær 75 milljóna króna aukafjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga vegna flutnings stofnunarinnar í nýtt húsnæði. Þegar Veðurstofa Íslands og Vatnamælingar voru sameinaðar var ljóst að finna þyrfti lausn á húsnæðisvanda stofnunarinnar og var farið yfir málið sameiginlega af umhverfis– og fjármálaráðuneyti.

Ítarleg þarfagreining og hagkvæmnisathugun var gerð af Framkvæmdasýslu ríkisins þar sem sjö leiðir voru bornar saman. Niðurstaðan var sú að hagkvæmasti kosturinn var að kaupa Bústaðaveg 7 sem er næsta hús við aðsetur Veðurstofunnar á Bústaðavegi 9.

Með þessu var tekið fyrsta skrefið til að finna framtíðarlausn á húsnæðismálum stofnunarinnar þar sem öll starfsemi Veðurstofunnar er komin á Bústaðaveginn fyrir utan útgerð mælibíla og mælitækja.

Flutningarnir tóku töluverðan tíma m.a. vegna nauðsynlegra lagfæringa á húsnæði til að aðstaðan mæti kröfum sem hæfa öryggishlutverki Veðurstofunnar. Einnig var bóka– og skjalasafn ásamt mötuneyti og móttöku flutt í nýtt húsnæði. Stærstu kostnaðarþættirnir eru 29 m.kr. vegna flutninga, 34 m.kr. vegna flutninga á tölvusal og 12 m.kr. vegna húsnæðiskostnaðar, samtals um 75 m.kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert