Hækkun vörugjalda illa unnin og ómarkviss

 Þótt færa megi rök fyrir því að þær fyrirætlanir stjórnvalda að leggja vörugjöld á matvæli sem innihalda viðbættan sykur og sætuefni séu skárri útfærsla en núverandi skipan vörugjalda á matvæli, þá eru upphafleg vandkvæði við skattlagninguna enn til staðar, segir í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda. „Útfærsla breytinganna mun nánast örugglega fela í sér mismunun milli vara og vöruflokka í samkeppni. Slíkt er óboðlegt,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að vörugjöld á matvæli breytist frá því sem nú er og skili ríkissjóði 800 milljóna kr. tekjuauka. Breytingar eiga samkvæmt frumvarpinu að vera unnar „á grundvelli tillagna starfshóps þannig að það [fyrirkomulag vörugjalda] taki meira mið af manneldismarkmiðum“.

Stjórn Félags atvinnurekenda vill koma eftirfarandi á framfæri um málið:

1. Gagnrýna verður fjármálaráðherra fyrir að að rökstyðja breytingar með því að vísa í ófullgerðar og ósamþykktar tillögur starfshóps um vörugjöld á matvæli. Þær ófullgerðu tillögur sem liggja fyrir eru verk starfsmanna ráðuneytisins. Fulltrúar FA og annarra samtaka sem eiga fulltrúa í starfshópnum (SVÞ, Samtök iðnaðarins, Bændasamtökin, Neytendasamtökin) hafa lýst sig ósammála þeirri leið sem boðuð er í tillögunum og hafa að auki bent á að vinna þurfi málið mun betur áður en fært er að taka ákvarðanir.

2. Þótt færa megi rök fyrir því að þær fyrirætlanir stjórnvalda að leggja vörugjöld á matvæli sem innihalda viðbættan sykur og sætuefni séu skárri útfærsla en núverandi skipan vörugjalda á matvæli, þá eru upphafleg vandkvæði við skattlagninguna enn til staðar. Í fyrsta lagi verður ekki séð að neyslumynstur muni breytast svo neinu nemi við breytingarnar þannig að erfitt er að halda því fram að manneldismarkmið séu betur í heiðri höfð eftir breytingarnar. Í öðru lagi mun útfærsla breytinganna nánast örugglega fela í sér mismunun milli vara og vöruflokka í samkeppni. Slíkt er óboðlegt.

3. Félag atvinnurekenda hefur margsinnis lýst þeirri skoðun að vörugjöld séu flókin, ógagnsæ og óskilvirk skattheimta sem skapi ójafnræði milli vara í innbyrðis samkeppni. Óskandi væri að stjórnvöld og stjórnmálamenn hefðu dug í sér að afnema þann fortíðardraug sem kerfið er. Til eru almennari leiðir til skattlagningar sem leiða ekki af sér sömu vandamál og vörugjöld.

4. Það ber að fagna því að stjórnvöld séu viljug til að einfalda framkvæmd innheimtu á vörugjöldum þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að kerfið mismuni aðilum. Mikilvægt er að þessari vinnu sé hraðað þannig að allir greiðendur vörugjalda sitji við sama borð varðandi afgreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert