Fundu tíu kindur á lífi í gær

Hundar voru notaðir til að þefa uppi féð í snjónum …
Hundar voru notaðir til að þefa uppi féð í snjónum og fundust tíu kindur á lífi í gær. Ljósmynd/Gísli Rafn Jónsson

Enn eru að finnast kindur á lífi í sköflum á NA-landi. Björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Stefáni fóru í gær frá Kröflu í Gjástykki og út í Eilífðarvötn að leita að fé og fundu tíu kindur.

Gísli Rafn Jónsson björgunarsveitarmaður segir að þeir noti hunda til leitar og að þar gagnist ekki síður venjulegir heimilishundar en aðrir við að hafa uppi á fénu.

Í ferðinni datt einn leitarmanna ofan í sprungu í Gjástykki en tókst að halda sér uppi og björguðu félagar hans honum upp aftur. Talið er að gjáin hafi verið fimm til tíu metra djúp.

Í fyrradag fundu leitarmenn tvö lömb á lífi í snjóskafli sem er hálfur kílómeter á lengd og um þrjú hundruð metrar á breidd. Ærin var dauð en lömbin á lífi og voru þau þokkalega spræk að sögn Gísla.

„Við erum að sjá skafla upp í fimm metra þykka. Þeir eru ekkert að fara,“ sagði Gísli spurður um hvort að snjórinn væri ekki á undanhaldi á svæðinu. Hann segir að áfram verði leitað í fönn á meðan fé finnst á lífi.

Bíllinn sem leitarmenn notuðust við er einkar þægilegur á þessu svæði þar sem bæði er hægt að keyra á honum á snjó og á auðri jörð. Hann segir vélsleða ekki tæka til leitar við þess háttar aðstæður.

Á svæðinu er nú hið ágætasta verður. Suðaustan gola og bjart að sögn Gísla.

Snjóbíllinn er bæði hægt að nota á auðu og á …
Snjóbíllinn er bæði hægt að nota á auðu og á snó og hentar því vel til leitar. Ljósmynd/Gísli Rafn Jónsson
Leitarmenn bjarga lambhrút úr snjónum.
Leitarmenn bjarga lambhrút úr snjónum. Ljósmynd/Gísli Rafn Jónsson
mbl.is