Lýður Guðmundsson ákærður

Lýður Guðmundsson
Lýður Guðmundsson mbl.is/Brynjar Gauti

Sérstakur saksóknari hefur ákært Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann Exista, fyrir stórfellt brot gegn hlutafélagalögum. Lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi er sömuleiðis ákærður og þess krafist að hann verði sviptur lögmannsréttindum.

Í ákærunni sem mbl.is hefur undir höndum er Lýð gefið að sök að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greiða minna en nafnverð fyrir nýtt hlutafé í Exista í desember árið 2008. Nafnvirði hlutanna var 50 milljarðar, en lagður var fram einn milljarður króna fyrir hlutina. Í ákærunni segir að milljarðurinn hafi í raun komið frá Lýsingu hf., sem var félag í eigu Exista, í formi láns. Samkvæmt ákæru rann upphæðin aldrei inn í rekstur Exista.

Lýður og Bjarnfreður H. Ólafsson lögmaður eru í ákærunni sakaðir um að hafa vísvitandi skýrt rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista þegar send var tilkynning til hlutafélagaskrár 8. desember 2008. Þar komi fram að hækkun hlutafjár hafi að fullu verið greidd til félagsins.

Í greinargerð með ákærunni segir að með þessum aðgerðum hafi verið farið þvert gegn ráðleggingu sérfræðinga og brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga um greiðslu hlutafjár. Hlutur annarra hluthafa í félaginu hafi verið þynntur út og þannig hafi Lýður og Ágúst Guðmundsson, bróðir hans, tryggt sér yfirráð yfir Exista.

11. desember 2008 leysti Nýi Kaupþing banki hf. til sín hlut félagsins í Bakkabraedrur Holding. Í stað þess að eignast 45% hlut í Exista eignaðist bankinn, að teknu tilliti til hlutafjáraukningarinnar, einungis 10,4% hlut við yfirtökuna.

Á miðju ári 2009 afturkallaði lögmaður Exista tilkynninguna frá 8. desember. Fjórum dögum síðar úrskurðaði fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra tilkynninguna frá desember ólögmæta og lækkaði skráð hlutafé um 50 milljarða.

Þess er krafist að tvímenningarnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en brot þeirra varða sektum eða allt að tveggja ára fangelsi. Þess er krafist að Bjarnfreður verði einnig sviptur lögmannsréttindum.

Sagði saksóknara vera í „óvissuferð“

Lýður Guðmundsson ritaði grein í Fréttablaðið í sumar þar sem hann sagði að sérstakur saksóknari væri í „óvissuferð“. Hann sagði að Rannsóknarskýrsla Alþingis væri morandi í villum hvað varðar Exista.

„Hvað viðkemur Exista er skýrslan morandi í villum og röngum ályktunum og því frábað ég mér með öllu að þurfa sitja undir slíku rugli í yfirheyrslu,“ segir Lýður í greininni.

Lýður segir embættið vera í óvissuferð. Sárt sé að fjöldi grandvarra samstarfsmanna hans liggi undir grun um glæpsamlegt athæfi sem ekki hafi átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert