Sendur þangað sem öryggi hans er talið ótryggt

Gistiheimilið Fit.
Gistiheimilið Fit. Rax / Ragnar Axelsson

Lögmaður Ahmeds Kamils, 35 ára gamals írasks karlmanns sem sendur var úr landi til Noregs í morgun, gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að huga ekki að því hvað bíði hans er hann kemur út. Beiðni Kamils um hæli í Noregi var hafnað í fyrra, hann verður því sendur þaðan aftur til Íraks þar sem öryggi hans er ekki tryggt, að sögn lögmannsins.

„Hann flúði frá Írak fyrir nokkrum árum, fór til Noregs og sótti þar um hæli. Þar beið hann úrlausn sinna mála í eitt og hálft til tvö ár. Að lokum var endanleg ákvörðun norskra stjórnvalda sú að senda hann aftur til Bagdad, þar sem hann bjó,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður mannsins.

Sótti um frestun á brottvísun í júlí

Kamil kom til landsins í október síðastliðnum og dvaldi á Gistiheimilinu Fit. Fyrr á árinu var ákveðið að vísa honum úr landi og hann sótti um frestun á brottvísuninni í júlí. Þeirri beiðni var synjað í gær og honum í kjölfarið gert að fara úr landi. Kári segir það sæta furðu að svo langan tíma skuli hafa tekið að afgreiða beiðnina og segir slíkar afgreiðslur yfirleitt fá flýtimeðferð.

Kamil var handtekinn um sexleytið í gærkvöldi á Fit. „Honum var sagt að taka saman eigur sínar og var færður á lögreglustöðina. Þá hafði ákvörðun um synjun frestunar hans á brottvísun verið birt opinberlega.“

Að sögn Kára er hann sendur til Noregs vegna þess að það sé það land sem beri ábyrgð á hælisumsókninni samkvæmt Dublinar-reglugerðinni, því þar hafi hann sótt um hæli fyrst. 

Ofsóttur vegna starfa fyrir bandaríska herinn

„Þetta mál hefur aldrei komist til dómstóla í hvorugu landinu. Hér á landi er það vegna þess að beiðni um brottvísun var hafnað, en í Noregi vegna þess að kostnaðurinn við málshöfðun var honum algerlega ofviða,“ segir Kári.

„Hann skýrir svo frá að hann hafi unnið verkefni í byggingavinnu fyrir bandaríska hernámsliðið og að vopnaðir hópar beiti þá, sem vinni fyrir Bandaríkjamenn, ofbeldi. Þeir komu að honum þar sem hann var að störfum ásamt bróður sínum og ætluðu að myrða þá. Þeim tókst að fela sig, en skömmu síðar var bróðir hans myrtur, af því að hann telur af sömu mönnum, og það liggur fyrir að þeir leituðu að Kamil á heimili hans.“

Í kjölfar þessa hafi Kamil ekki þorað að fara aftur á heimili sitt og hafi lagt á flótta.

Kári segir norsk stjórnvöld hafa hafnað beiðni Kamils vegna þess að þau töldu sögu hans ekki nógu sannfærandi. Hann fékk endanlega synjun í Noregi í ágúst í fyrra og kom til Íslands nokkrum vikum síðar.

„Ómannúðleg meðferð“

„Þau atvik, sem hann greinir frá að hafi gerst í Írak, eru aldrei tekin til efnislegrar meðferðar á Íslandi, heldur er afgreiðsla íslenskra stjórnvalda einskorðuð við að hann hafi áður sótt um hæli í Noregi. Það sem við höfum talið athugavert við það er að bæði samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasáttmála Evrópu er endursending til lands, þar sem liggur fyrir að hann verði þegar í stað sendur til Írak, ekki heimil. Endursendingin til Íraks telst ómannúðleg meðferð.“

Kamil fór með flugvél Icelandair til Óslóar skömmu fyrir klukkan átta í morgun, að öllum líkindum í fylgd með fulltrúa frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Kári segist gera ráð fyrir að hann verði handtekinn á flugvellinum við komuna og að þá verði hann líklega færður í fangelsi á flugvellinum. Þar sé hælisleitendum safnað saman og þegar kominn sé tiltekinn fjöldi séu þeir sendir saman til síns heimalands.

„En ég vona að honum takist að setja sig í samband við norska lögmenn sem geta kannað hvort frekari úrræði séu fyrir hann í Noregi.“

Afskiptum af málinu er ekki lokið

Afskiptum Kára af máli Kamils er ekki lokið, hann mun reka hans mál áfram hér á landi. „Ég hef umboð hans til að reka málið áfram á Íslandi eftir því sem hægt er. Verkefni dagsins er að kanna hvort við sjáum einhvern möguleika á að fara með málið fyrir dóm þannig að hægt sé að fá hann aftur til landsins. Ég vona að ég heyri frá honum fljótlega, en ég veit ekki hvaða aðstæður honum verða búnar þarna úti.“

Frá mótmælum hælisleitenda, þar sem þeir mótmæla því að vera …
Frá mótmælum hælisleitenda, þar sem þeir mótmæla því að vera sendir úr landi. Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina