Guðlaugur Þór vill 2. sætið

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég bið um stuðning ykkar til að leiða lista okkar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna í komandi þingkosningum. Ég hef ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í lok yfirlýsingar sem hann birti þar í kvöld.

Guðlaugur Þór sóttist eftir fyrsta sætinu í Reykjavík fyrir síðustu þingkosningar ásamt Illuga Gunnarssyni, núverandi þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Illugi hafði hins vegar betur og Guðlaugur varð í öðru sæti í prófkjörinu. Þeir leiddu síðan sitt hvorn framboðslistann í Reykjavíkurkjördæmunum.

Þrátt fyrir ákvörðun Guðlaugs verður Illugi ekki einn um að sækjast eftir fyrsta sætinu í Reykjavík en Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur lýst því yfir að hún ætli að sækjast eftir fyrsta sætinu í borginni fari fram almennt prófkjör.

Yfirlýsing Guðlaugs Þórs:

„Kæru vinir

Í mínu pólitíska starfi hef ég ávallt lagt áherslu á að bæta hag heimila, styrkja atvinnulífið og hafa frelsi einstaklingsins að leiðarljósi. Á þessu kjörtímabili hef ég unnið eftir þeirri forskrift og lagt sérstaka áherslu á að veita ríkisstjórninni og stofnunum ríkisins aðhald.

Helsti drifkraftur þjóðfélagsins eru heimilin ásamt litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Vinstri stjórn undanfarinna ára hefur hins vegar ekki tryggt atvinnulífinu eðlileg rekstarskilyrði og staða heimilanna er mikið áhyggjuefni. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart enda hefur engin þjóð náð að vinna sig út úr efnahagslegum þrengingum með stórauknum ríkisafskiptum og skattpíningu, líkt og vinstri stjórnin hefur lagt megináherslu á. Eina leiðin til að bæta lífskjörin og tryggja velferð er að veita fólkinu í landinu frelsi til athafna.

Ég vil leggja mitt af mörkum í þeirri baráttu sem framundan er og vonast til að fá stuðning ykkar til að halda áfram á sömu braut. Okkar Sjálfstæðismanna bíður það spennandi verkefni að stilla upp sigurstranglegum lista fyrir mikilvægustu alþingiskosningar sem fram hafa farið hér á landi.

Markmiðið er að koma þessari ríkisstjórn frá og leiða Ísland inn í betri tíð.

Ég bið um stuðning ykkar til að leiða lista okkar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna í komandi þingkosningum. Ég hef ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert