Tímakaupið meira en tvöfaldast

Frá kynningu slitastjórnar Glitnis fyrir kröfuhafa. Steinunn Guðbjartsdóttir formaður í ...
Frá kynningu slitastjórnar Glitnis fyrir kröfuhafa. Steinunn Guðbjartsdóttir formaður í forgrunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samkvæmt sundurliðun á rekstrarkostnaði skilanefndar og slitastjórnar Glitnis er tímakaup formanns slitastjórnar 35.500 kr. og aðrir fá 25.500, án virðisaukaskatts, er þetta meira en tvöföldun á tímakaupi eins og það var upphaflega hjá slitastjórnunum 2009, eða 16.000 kr. á tímann.

Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna óskuðu eftir sundurliðun á rekstrarkostnaði skilanefndar og slitastjórnar Glitnis frá árinu 2009. Samkvæmt þeim gögnum, sem Morgunblaðið hefur fengið, nam launakostnaður skilanefndar- og slitastjórnarmanna ríflega 230 milljónum króna árið 2009, 277 milljónum árið 2010, 290 milljónum á síðasta ári og 98 milljónum á fyrstu sex mánuðum þessa árs hjá slitastjórninni, eða samanlagt um 900 milljónum frá því að nefndirnar tóku til starfa í maí 2009. Skilanefnd Glitnis lauk störfum á síðasta ári.

Skipt eftir lögmönnum í slitastjórn hafa greiðslur til lögmannsstofu Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar, numið 313 milljónum króna frá árinu 2009, þar af 100 milljónum á síðasta ári og 50 milljónum á fyrri helmingi þessa árs. Félög tengd Páli Eiríkssyni, varaformanni slitastjórnar, hafa fengið alls á tímabilinu um 240 milljónir króna.

Meira en við áttum von á

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildi lífeyrissjóðs, segir stjórn sjóðsins eiga eftir að fjalla um næstu skref, að fengnum þessum upplýsingum til kröfuhafa þrotabúsins. Mestu hafi skipt að fá leyndinni af launakostnaðinum aflétt og hefur tekið sinn tíma að fá þessi gögn.

„Við vissum að kostnaðurinn væri mikill en ef ég á að svara fyrir mig þá er þetta meira en ég reiknaði með,“ segir Árni og bendir á að með auknum rekstrarkostnaði slitastjórna og skilanefnda  fái kröfuhafar þrotabúanna minna í sinn hlut.

mbl.is