Formannskosningar í febrúar

Skúli Helgason alþingismaður.
Skúli Helgason alþingismaður. mbl.is/Atli Mar Hafsteinsson

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að við munum kjósa nýjan formann á landsfundinum í febrúar, það held ég að sé nokkuð klárt,“ segir Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, aðspurður hvort formannskosningar muni fara fram á næsta landsfundi Samfylkingarinnar í ljósi yfirlýsinga Jóhönnu Sigurðardóttur þess efnis að hún ætli að láta af störfum sem formaður flokksins við lok núverandi kjörtímabils.

Að sögn Skúla er Jóhanna að stíga til hliðar eftir mjög farsælan stjórnmálaferill sem hófst árið 1978. „Manni er auðvitað efst í huga núna virðing og þakklæti fyrir að hafa notið samvista við þessa miklu stjórnmálakonu undanfarin ár,“ segir Skúli.

Aðspurður hvort hann muni bjóða sig fram í embætti formanns Samfylkingarinnar á næsta landsfundi flokksins segir Skúli: „Ég mun örugglega ekki gera það. Ég tel reyndar að þetta sé fyrst og fremst ákvörðun sem flokksmenn þurfa að taka og þeir þurfa að fá svolítinn tíma til þess að velta því fyrir sér hver sé heppilegur arftaki Jóhönnu og sá einstaklingur þarf að hafa miklu reynslu af störfum innan Samfylkingarinnar og af því að vera í fremstu víglínu í stjórnmálum.“

Skúli segist telja að aðrir einstaklingar hljóti að koma þarna frekar til skoðunar en hann sjálfur. Þá leggur hann áherslu á að maður bjóði sig ekki fram til formanns við þessar aðstæður, flokkurinn þurfi að kalla til þann einstakling sem hann treystir best til að sinna þessu vandasama starfi.

mbl.is