Framboð Ara Trausta kostaði 1,8 milljónir

Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Trausti Guðmundsson, sem bauð sig til embættis forseta Íslands í sumar, hefur skilað fjárhagsuppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Þar kemur fram að kosningabarátta hans kostaði 1.789.167 krónur.

Ari Trausti er fyrstur frambjóðenda til að skila uppgjöri, en það þurfa allir frambjóðendur að gera í samræmi við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Ríkisendurskoðun hefur gefið frambjóðendum frest til 30. september til að skila uppgjöri. Það eru því þrír dagar til stefnu.

Samkvæmt uppgjöri Ara Trausta styrktu 37 einstaklingar framboðið. Sjö félög lögðu honum til fé á bilinu 5.000-180.000 hvert. Þetta eru Efla hf., RK Design ehf., ABJ Engineering ehf., Funafold ehf., Reynihlíð hf., Excellentia ferðamiðlun og ehf. og Vesturkot ehf. Hæsti styrkurinn kom frá Vesturkorti, 180 þúsund krónur.

Sex einstaklingar buðu sig fram í kosningunum sem fram fóru 30. júni: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert