Skýrslu skilað fyrir októberlok

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl/Ómar

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur sent ríkisendurskoðanda, Sveini Arasyni, bréf þar sem farið er fram á að stofnunin skili fullbúinni skýrslu um kaup ríkisins á fjárhags- og mannauðskerfi (Oracle) á árinu 2001, innleiðingu þess og rekstur síðan þá. Telur Ásta Ragnheiður að dráttur á gerð skýrslunnar sé mjög aðfinnsluverður. Slíkt megi aldrei endurtaka sig.

Segir í bréfinu að fram hafi komið að skýrslu, sem Ríkisendurskoðun var falið að gera í apríl 2004 á fjárhagslegum og faglegum undirbúningi og framkvæmd hins nýja kerfis, hefur ekki enn verið skilað.

 Bréf forseta Alþingis til ríkisendurskoðanda:

„Ég vísa til samtals okkar í gær, miðvikudaginn 26. sept., um skil Ríkisendurskoðunar á skýrslu sem Alþingi óskaði eftir með bréfi 6. apríl 2004. Skýrslunni var ætlað að vera „úttekt á því hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd við að koma á nýju hugbúnaðarkerfi (ORACLE) hjá ríkinu, bæði fjárhagslega og faglega“.

Ég tel að dráttur á gerð skýrslunnar sé mjög aðfinnsluverður. Slíkt má aldrei endurtaka sig. Lagaheimild til þess að óska skýrslna Ríkisendurskoðunar er einn mikilvægasti þátturinn í eftirlitshlutverki Alþingis.

Með bréfi þessu fer ég fram á það við Ríkisendurskoðun að hún ljúki skýrslugerðinni hið allra fyrsta og eigi síðar en fyrir lok októbermánaðar. Skýrslan verði þá þegar send Alþingi eins og lög kveða á um.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar verður, jafnskjótt og hún berst, send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til meðferðar eins og vera ber samkvæmt þingsköpum. Ríkisendurskoðanda mun þá gefast færi á því á vettvangi nefndarinnar að fylgja skýrslunni eftir.

Aðrir, sem að málinu koma, einkum Fjársýsla og fjármálaráðuneyti, sölu- og viðhaldsaðilar og aðrir, munu einnig fá færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina.

Eins og þingsköp gera ráð fyrir mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðan leggja fyrir Alþingi niðurstöður athugana sinna með nefndaráliti. Nefndinni er einnig heimilt að gera tillögu til þingsályktunar af þessu tilefni ef henni sýnist svo.

Ég bind vonir við að málið hljóti með þessum hætti eðlilega meðferð og niðurstöðu af hálfu Alþingis. Forsenda þess er þó sú að fullbúin skýrsla Ríkisendurskoðunar komi fram hið fyrsta.“

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert