Ákvörðunin sögð vera barnaleg

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson mbl.is/Golli

„Þetta er náttúrulega bara barnalegt. Ríkisendurskoðun er ekki einhver einn maður eða fyrirbæri sem hægt er að hunsa heldur hefur stofnunin lögskipað hlutverk,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og vísar til ákvörðunar meirihluta fjárlaganefndar Alþingis þess efnis að senda ekki frumvarp til fjáraukalaga til umsagnar Ríkisendurskoðunar.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ákveðinn trúnaðarbrestur hafi orðið á milli fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar.

Kristján Þór bendir á að Alþingi hafi að lögum það verkefni að setja landinu fjárlög og því þykir honum meirihluti fjárlaganefndar vart sýna merki um mikinn þroska við þá ákvörðun að senda frumvarpið ekki til umsagnar. 

„Satt best að segja veit ég ekki hvað þeim gengur til því skýringarnar sem við fengum á þessum fundi voru engar og niðurstaðan ekki byggð á neinum rökum,“ segir Kristján Þór og bætir við að ljóst sé að stjórnarmeirihluti hafi vart fagnað alvarlegum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi framkvæmd fjárlaga.

„Ríkisendurskoðun hefur það hlutverk að gera athugasemdir, ef henni sýnist svo, við það ráðslag sem haft er með höndum og menn verða bara að hafa þroska til þess að taka því. En það er hins vegar alveg ljóst að þessar athugasemdir sem að Ríkisendurskoðun hefur gert í sínum skýrslum, og aldrei hefur verið gerð nein athugasemd opinberlega við á þingi, að ekkert hefur verið unnið frekar með þær heldur hefur verið reynt að þegja þær í hel,“ segir Kristján Þór.

Að hans mati er hugsanlegt að verið sé að taka þennan slag við Ríkisendurskoðun vegna einhvers máls sem embættið kann að vera að vinna að eða til þess að forðast álits á einhverjum tilteknum þáttum.

„Sú staða er uppi að meirihluti fjárlaganefndar leggst gegn því að almenningur sé upplýstur um tiltekin atriði varðandi fjáraukalagabeiðnir ráðuneyta. Þeir halda því fram að þetta sé eitthvað trúnaðarmál,“ segir Kristján Þór og bætir við að honum þyki sú afstaða vera með ólíkindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert