Brýnt að vinna í trúnaðarbresti

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson mbl.is/Ómar

„Það varð ákveðinn trúnaðarbrestur á milli fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar vegna þessarar vinnu varðandi fjárhags- og bókhaldskerfi ríkisins og það er skoðun okkar að nauðsynlegt sé að vinna í þeim trúnaðarbresti áður en lengra er haldið,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur ákveðið að senda ekki frumvarp til fjáraukalaga til umsagnar Ríkisendurskoðunar en embættið fær á ári hverju sent til sín fjárlagafrumvarp og fjáraukalagafrumvarp til umsagnar áður en þau eru lögð fyrir þingið.

Sigmundur Ernir segir ákvörðun meirihluta fjárlaganefndar vera skýr skilaboð um mikilvægi þess að fullur trúnaður ríki á milli nefndarinnar og embættis Ríkisendurskoðunar.

„Þó hún [Ríkisendurskoðun] sé sjálfstæð stofnun þá verður hún að geta tjáð sig með einhverjum hætti við fjárlaganefnd um þau efni sem hún er að taka fyrir hverju sinni,“ segir Sigmundur Ernir og bætir við að öðruvísi geti embættið ekki uppfyllt eftirlitshlutverk sitt.

Spurður hvað þurfi að koma til þess að trúnaður myndist á nýjan leik segir Sigmundur nauðsynlegt að gott samtal eigi sér stað auk þess að skipt sé á hugmyndum um nýtt vinnulag. „Þar finnst mér frumkvæðið ekki síður þurfa að koma frá Ríkisendurskoðun heldur en fjárlaganefnd.“

Spurður hvernig hann meti stöðu ríkisendurskoðanda í ljósi þess máls sem nú hefur komið upp segist Sigmundur Ernir ekki vilja persónugera hlutina.

„Núverandi ríkisendurskoðandi fékk þetta mál í fangið á sínum tíma og ég er ekki gefinn fyrir að persónugera svona hluti enda er fyrst og fremst um verklag og verklagsreglur Ríkisendurskoðunar að ræða.“

Þá segir hann nefndina ætla að gefa sér ákveðinn tíma til þess að ræða stöðu mála við embætti Ríkisendurskoðunar og eftir atvikum forystu Alþingis.

„Það er í sjálfu sér eðlilegt að staldra við á þessum tímamótum og allir aðilar hugsi sinn gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert