„Herra Netanyahu - rífðu niður þennan vegg,“

Össur Skarphéðinsson varpaði fram beinskeyttri gagnrýni á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna …
Össur Skarphéðinsson varpaði fram beinskeyttri gagnrýni á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á allsherjarþingi samtakanna fyrr í dag. mbl.is/Rax

„Ég er ánægður og stoltur af því að ekki einn einasti meðlimur íslenska þingsins mælti gegn stuðningi Íslands við fullveldisbaráttu Palestínu,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í ræðu sem hann flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í New York.

„Ég hef sjálfur heimsótt Gaza-svæðið og vekur hjá mér mikla sorg að sjá hvernig líf barna er eyðilagt með ofbeldi og fátækt. Ég hef sjálfur séð hvernig mannréttindi fólks á vesturbakkanum eru vanvirt með manngerðu virki sem sker í gegnum vegi þeirra, lungu og líf,“ sagði Össur.  „Herra Netanyahu - rífðu niður þennan vegg,“ bætti hann við.

Össur lagði fram lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs. „Besta leiðin til að tryggja frið á svæðinu er tveggja-ríkja fyrirkomulag. Það myndi ekki aðeins þjóna hagsmunum Palestínumanna heldur Ísraelsmanna einnig,“ sagði Össur.

Hann sagðist hafa skilaboð frá íslensku þjóðinni til Bejamins Nteanyahus. „Ekki varpa sprengjum á Íran. Ekki ár þessu ári né næsta ári. Ekki hefja annað stríð í mið-austurlöndum. Á sama tíma segi ég við ríkisstjórn Írans: Ekki setja saman sprengjur. Leyfið utanríkisþjónustu að sinna hlutverki sínu, vinnum að friði í sameiningu,“ sagði Össur.

„Við höfum séð grundvallarbreytingar eiga sér stað með arabíska vorinu sem hafði lýðræðislegar kosningar í för með sér. Lýðræði mótast og batnar með tímanum og arabíska vorið er rétt að byrja. Í lýðræði eiga allir sér stað og hlutverk. Við hvetjum alla til að leyfa vorinu að þoka okkur í átt að lýðræði og jafnrétti. Að systur okkar í arabaheminum fái að njóta réttinda á við karlmenn og allir njóti jafnréttis,“ sagði Össur.

Össur ræddi langvarandi óeirðir í Sýrlandi. „Því miður er ekkert vor í Sýrlandi. Þúsundir saklausra borgara, ekki síst barna týna lífinu vegna kúgunarstjórnar. Alþjóðasamfélagið verður að sýna meiri viðleitni til að  tryggja friðsæla lausn á deilunum,“ sagði Össur.

Geislar frá sömu sól

Ráðherrann deildi hart á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. „Ástandið í Sýrlandi er vakningarkall til Öryggisráðsins, en það hefur sýnt fram á hversu einangrað ráðið er og hvað það er í takmörkuðu sambandi við þarfir heimsins. Sannleikurinn er sá að Öryggisráðið er orðið að hindrun þegar þjóðir heimsins reyna að ávarpa og takast á við vanda eins og þann sem nú ríkir í Sýrlandi. Við verðum að bæta það og gera Öryggisráðið að tæki til framþróunar í ríkjum á borð við Sýrland og Palestínu, en ekki hindrun,“ sagði hann.

Össur talaði einnig um að íslenska þjóðin gæti verið stolt af því að vera í framvarðarsveit réttindabaráttu kynjanna, og ítrekaði mikilvægi þess að kyn, kynhneigð og kynvitund ætti engin áhrif að hafa á mannréttindi. „Við erum jú öll geislar frá sömu sólinn,“ sagði hann.

Hann talaði einnig um að Íslendingar hefðu tekið að sé ákveðið forystuhlutverk á sviði endurnýtanlegrar orku og ræddi starf Íslands í þá veru í Austur-Afríku og ræddi fylgiverkun þeirra verkefna á norðurheimskautið.

Ráðherrann var viðstaddur opnun þingsins á þriðjudag þar sem Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Vuk Jeremić, forseti allsherjarþingsins, og forsetar Brasilíu og Bandaríkjanna fluttu fyrstu ræðurnar. Hefur Össur jafnframt tekið þátt í fjölda ráðherrafunda sem haldnir eru samhliða allsherjarþinginu.

Vefur utanríkisráðuneytisins

mbl.is