3,2 stiga skjálfti í Kötlu

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul mbl.is

Jarðskjálfti upp á 3,2 að stærð varð í Kötlu rétt fyrir klukkan hálfníu í morgun. Gunnar Guðmundsson, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að upptök skjálftans hafi verið norðarlega í Kötluöskjunni. Hann hafi verið grunnur, á aðeins um 100 metra dýpi.

Gunnar segir að annar minni skjálfti hafi orðið stuttu áður, en engir skjálftar hafi fylgt í kjölfarið og enginn órói hafi komið fram á óróamælum.

Gunnar segir að fremur lítil skjálftavirkni hafi verið í Kötlu síðustu mánuði. Hann segir að engin skýr merki séu um frekari hræringar í Kötlu og á ekkert frekar von á fleiri skjálftum. Menn fylgist hins vegar alltaf vel með öllum skjálftum í Kötlu.

Það hafa áður komið jarðskjálftar í Kötlu sem eru stærri en 3, en Gunnar segir að skjálftar af þessari stærð séu ekki mjög algengir.

Skjálftinn er merktur með grænni stjörnu.
Skjálftinn er merktur með grænni stjörnu. Mynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina