Skýr skilaboð til glæpagengja

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Kristinn Ingvarsson

„Við munum bregðast við málinu á nákvæmlega sama hátt og við höfum verið að gera,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um viðbrögð sín við því að liðsmenn Outlaws-samtakanna skuli hafa skipulagt árásir á lögreglumenn. Ögmundur segir ofbeldi gegn lögreglu aldrei verða þolað.

Árásunum var sem kunnugt er hrundið með handtökum í fyrrakvöld og segir Ögmundur aðgerðirnar eiga sér aðdraganda.

„Þessar aðgerðir lögreglu eru í beinu framhaldi af áætlunum sem ákveðið var að hrinda í framkvæmd í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það er orsakasamhengi þarna á milli, orðanna annars vegar og efndanna hins vegar. Lögreglan hefur beint sjónum sínum að þessum hópum, hefur fengið aukið fjármagn til að takast á við þá og helst uppræta.

Allt þetta byggist á góðu samstarfi lögreglu, framkvæmdavalds, það er að segja innanríkisráðuneytis og fjárveitingarvaldsins á Alþingi.

Allsherjarnefnd þingsins hefur komið að málinu á mjög uppbyggilegan hátt eins og við var að búast og er góður samhljómur á meðal allra þessara aðila. Hygg ég að þetta endurspegli vel þann ríka vilja sem er í samfélaginu að uppræta skipulega brotastarfsemi í landinu. Mér finnst lögreglan eiga lof skilið fyrir framgöngu sína. Hún er að sýna á markvissan og fumlausan hátt í verki hvernig hún tekur á alvarlegum málum af þessu tagi.“

Ofbeldi verður aldrei þolað

- Sýnir málið ekki að skipulögð glæpastarfsemi er komin á hættulegt stig og að lögreglan eigi fullt í fangi með að halda aftur af henni?

„Nei. Þvert á móti endurspegla aðgerðir lögreglunnar þann ásetning hennar og stjórnvalda að láta hótanir og ofbeldi ekki viðgangast undir nokkrum kringumstæðum. Þannig að þetta eru skýr skilaboð út í þennan heim um að slíkt verður aldrei þolað.“

Samfélagið má ekki bregðast lögreglumönnum

- Kemur til greina að lögreglumenn verði með neyðarhnappa á heimilum sínum?

„Lögreglan mun íhuga hvað nauðsynlegt er að gera í slíkum efnum en auðvitað á að taka hótanir alvarlega og hafa allan vara á og þann forvarnarviðbúnað sem nauðsyn krefur. Lögreglan mun væntanlega ræða það í sínum ranni hvernig við verjum best okkar fólk - þá einstaklinga sem falið hefur verið það erfiða verkefni að verja samfélagið. Samfélagið má að sjálfsögðu ekki bregðast þeim. Að sjálfsögðu eigum við að standa vörð um lögreglumenn og þeirra fjölskyldur ... En við eigum að gera þetta allt á yfirvegaðan hátt.“

- Hafði lögregluaðgerðin gegn Outlaws í fyrrakvöld alþjóðlega vídd?

„Ég þekki það ekki svo gerla og vísa þessari spurningu til lögreglunnar.“

Bann hefur gefist misvel

- Kemur til greina að banna glæpasamtök á borð við Hell's Angels og Outlaws?

„Eðli máls samkvæmt er skipulögð brotastarfsemi bönnuð. Hvort það eigi að banna einhverja tiltekna hópa hef ég ákveðnar efasemdir um að það skili tilætluðum árangri og getur auk þess haft keðjuverkandi afleiðingar sem leiða af sér bann á bann ofan. Ég gef mér þó ekkert endanlegt svar við þessari spurningu og finnst eðlilegt að hún sé rædd. En ég hef þann vara á að hópur sem kemur fram í einni mynd kann að koma fram í annarri á morgun.

Bann hefur gefist misvel þar sem það hefur verið reynt erlendis. Það sem máli skiptir er að þegar hópar gerast uppvísir að alvarlegum brotum, eða áformum um að fremja alvarleg brot, þá sé tekið hart á slíku. Og það erum við að gera. Við skulum ekki gleyma því að við erum búin að láta umtalsvert fjármagn til að uppræta hópa af þessu tagi. Ég hef trú á því að okkur hafi orðið talsvert ágengt í því efni. Fyrir það á lögreglan að sjálfsögðu lof skilið.“

Hægt að uppræta starfsemina

- Eru glæpagengi komin til að vera?

Svo þarf alls ekki að vera. Ég held að það sé hægt að uppræta starfsemi af þessu tagi í litlu samfélagi eins og okkar. Þá horfi ég til félagslegrar samstöðu sem reynsla sýnir að auðveldara er að virkja á Íslandi en víðast annars staðar. Þá vil ég leggja áherslu á að þetta er ekki einvörðungu spurning um lögregluaðgerðir eða refsingar og annað af slíku tagi heldur er þetta spurning um hvernig samfélagið allt tekur á málum.

Ég horfi til dæmis til fjölmiðla og hvernig þeir skynja hlutverk sitt; hvort þeir setja menn sem meiða annað fólk upp á stall hetjunnar eða hvort þeir afgreiða slíka aðila í sínu rétta samhengi. Þannig að ég er að höfða til samfélagsins alls, að við saman ákveðum að ráða bót á þessari alvarlegu meinsemd.

Síðan er það einnig hitt að það eru margir sem rata inn í slíka hópa eftir ógæfuferlum. Við eigum að beina sjónum okkar að því að koma í veg fyrir að ungt fólk, sem hefur eins og allir inn við beinið gott hjartalag að eðli til, rati inn á slíkar brautir. Við þurfum að virkja hið góða í fólki sem á í erfiðleikum og ratar í ógöngur með líf sitt. Það er verkefni sem við þurfum að horfa til. Við skulum ekki bara horfa til hörkunnar og refsinga, heldur líka til mildinnar og hvernig við fáum forðað ungu fólki frá því að lenda á inn á refilstigu,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert