„Mátti engu muna að það yrði stórslys“

Bifreiðin skemmdist töluvert við höggið.
Bifreiðin skemmdist töluvert við höggið.

Hætta skapaðist á Gullinbrú í gærkvöldi þegar jeppi, sem var kerru í eftirdragi, beygði snögglega fyrir fólksbifreið með þeim afleiðingum að kerran skall á henni. Ársgamalt barn var í fólksbílnum ásamt móður sinni. Þau sakaði ekki en bifreiðin skemmdist við höggið. Ökumaður jeppans stakk af.

Atvikið átti sér stað um kl. 18.45 á miðri Gullinbrú við Grafarvog í Reykjavík í gærkvöldi og hefur það verið tilkynnt  lögreglu.

Viðmælandi mbl.is, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir að ökumaður jeppans hafi sýnilega verið æstur og reynt að þvinga bifreiðina, sem er að gerðinni Toyota Yaris, út af veginum.

Hann segir að atburðarásin hafi hafist við umferðarljósin við Fjallkonuveg, en þar er tvöföld akrein. Yaris-bifreiðin, sem ók í suðurátt, var á þeirri vinstri og var annar bíll til hægri við hana. Jeppinn með kerruna var fyrir aftan Yarisinn.

Var afar brugðið

Maðurinn segir að ökumaður jeppans hafi farið að þeyta bílflautuna fljótlega eftir að það kom grænt ljós. „Hann var greinilega mjög æstur og hann keyrði alveg upp við bílinn hennar.“

Þegar bílarnir voru um það bil hálfnaðir yfir Gullinbrú beygði bifreiðin sem var til hægri við Yarisinn inn afreinina í Bryggjuhverfið. Þá voru bílarnir komnir á um 80 km hraða, en tekið skal fram að hámarkshraði á þessum vegarkafla er 60 km á klukkustund.

Við þetta færði ökumaður jeppans sig snögglega yfir á hægri akreinina. „Hann lítur inn í bílinn og maður ímyndar sér að hann hafi séð að það hafi verið kona og barn í bílnum. Svo keyrir hann að henni - þvingar hana til hliðar alveg út í kant. Hann gefur svo í og beygir svo snöggt fyrir hana og rekur kerruna á framendann á bílnum, eins og sést á myndinni. Hann tekur nánast brettið af.“

Hann segir að vinstri hlið bifreiðarinnar hafi farið upp á steinkant. Það sé mikil mildi að konan hafi náð að halda ró sinni og bílnum á veginum. „Það er það sem bjargaði að ekki varð slys.“ Konunni hafi hins vegar verið afar brugðið.

Ökutækinu beitt sem vopni

„Þetta er í sjálfu sér tilræði,“ segir maðurinn. „Það er verið að beita ökutæki sem vopni. Þetta er ofbeldi og það mátti engu muna að það yrði stórslys.“

Aðspurður segir hann að konan hafi ekki náð bílnúmeri jeppans, sem hann segir að sé silfurgrár að lit. Líklega sé hann af gerðinni Mitsubishi Pajero. Málið var tilkynnt lögreglunni sem er með málið til skoðunar. Þeir sem hafa mögulega orðið vitni að atvikinu eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert