Ekki hægt að komast í skjöl Landsdóms

Landsdómur lauk störfum 23. apríl sl.
Landsdómur lauk störfum 23. apríl sl. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki er hægt að skoða skjöl Landsdóms, en þau eru geymd í skjalasafni Hæstaréttar. Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar og ritari Landsdóms, segir að Þjóðskjalasafnið vilji ekki taka við skjölum sem eru yngri en 30 ára.

Mbl.is spurðist fyrir um það hjá Þorsteini hvort búið væri að afhenda skjöl Landsdóms til Þjóðskjalasafns, en landsdómur lauk störfum 23. apríl sl. þegar dómur var kveðinn upp í máli sem höfðað var gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Í svari frá Þorsteini segir að samkvæmt 6. gr. laga um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985 skuli afhenda Þjóðskjalasafni skilaskyld skjöl eigi síðar en þegar þau hafa náð þrjátíu ára aldri. „Að minnsta kosti varðandi skjöl frá Hæstarétti vill safnið ekki taka við þeim ef þau eru yngri en 30 ára. Þar af leiðandi eru skjöl Landsdóms varðveitt hér hjá Hæstarétti.“

Mbl.is óskaði þá eftir að fá að skoða skjölin hjá Hæstarétti þar sem þau eru varðveitt. Í svari frá Þorsteini segir: „Samkvæmt 16. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er ekki heimilt að veita aðgang að öðrum gögnum í sakamáli en ákæru, greinargerðum og dómum og úrskurðum. Erindinu er því synjað.“

Þjóðskjalavörður getur stytt skilafrestinn

Í 6. gr. laga um Þjóðskjalasafn segir: „Skilaskyld skjöl skal afhenda Þjóðskjalasafni að jafnaði eigi síðar en þegar þau hafa náð þrjátíu ára aldri. Þó skulu skjöl og önnur gögn á rafrænu formi afhent að jafnaði eigi síðar en þegar þau hafa náð fimm ára aldri. Er þá miðað við síðustu innfærslu í bók eða síðasta bréf afgreidds máls. Þjóðskjalavörður getur lengt þennan frest eða stytt í einstökum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með því.

Þegar lög voru sett um rannsóknarnefndir Alþingis árið 2011 var kveðið sérstaklega á um varðveislu skjala. Þar segir: „Að rannsókn nefndarinnar lokinni skulu gögn, sem aflað hefur verið við rannsóknina, færð Þjóðskjalasafni Íslands. Um aðgang að þeim fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga og laga um Þjóðskjalasafn Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert