„Erfitt að vera leiðinlegi maðurinn“

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, eins og hún var skipuð fyrir nokkrum …
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, eins og hún var skipuð fyrir nokkrum árum, á fundi. mbl.is/Ómar

Lýsingar stjórnarmanna í Orkuveitu Reykjavíkur á því hvernig það hafi verið að sitja í stjórninni benda til að stjórnin hafi ekki starfað eins og hefðbundnar stjórnir í stórum fyrirtækjum. Úttektarnefnd OR leggur til að stjórnin verði í framtíðinni ekki skipuð stjórnmálamönnum.

Í skýrslu úttektarnefndarinnar er vitnað beint í nokkra af viðmælendum nefndarinnar með svipuðum hætti og gert var í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Haft er eftirfarandi eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem sat í stjórn OR og var um tíma stjórnarformaður fyrirtækisins: „Það er erfitt að vera alltaf leiðinlegi maðurinn. Það er svolítið barnalegt þegar talað er um samvinnustjórnun. Það er ekki vandinn. Vandinn er sá að menn hafi það í rauninni of kósý. Segjum það að við værum saman í stjórninni og við þrjú hér í meirihluta og okkur kemur ágætlega saman. Klókur formaður tryggir góðan móral og að hópurinn geri eitthvað skemmtilegt saman og kannski þá með mökunum. En síðan koma einhverjir úr minnihlutanum og eyðileggja móralinn með því að ráðast á okkur og eru að bóka í sífellu, eru partíspillar. Kósýheitin – þau geta verið slæm. Kósý-bandalagið er líka hættulegt fyrir kjósendur. Ég hafði reglulega samskipti við fjölmiðla af því að ég var mjög ósáttur við hvert Orkuveitan stefndi. Ég bara hafði mjög sterka sannfæringu fyrir því að menn hafi verið algjörlega úti á túni. Það var ástæðan fyrir því að ég bókaði mikið. Ég vildi að Orkuveitan héldi sig frá samkeppnisstarfsemi. Menn eru að átta sig á því núna að ég hafði rétt fyrir mér og það mörgum milljörðum seinna.“

Úttektarnefndin vekur einmitt athygli á að oft og tíðum hafi stjórnarmenn sent frá sér mjög langar bókanir. Slíkt sé óvenjulegt í hefðbundnum stjórnum fyrirtækja.

Fundargerðir stjórnar eru núna opinberar

Kjartan Magnússon sagði þetta um stjórnarfundina: „Stjórnarmönnum ber að gera athugasemdir við vinnubrögð, telji þeir að ekki sé rétt að verki staðið. Þessar athugasemdir geta verið munnlegar eða skriflegar eftir atvikum hverju sinni. Í stjórn Orkuveitunnar er bókanahefð í fundargerðum líkari því sem tíðkast í nefndum og ráðum á sveitarstjórnarstiginu, en í fundargerðum stjórna einkafyrirtækja þar sem upplýsingar eru oft afar takmarkaðar. Þetta er eðlilegt enda er Orkuveitan opinbert fyrirtæki og því rétt að almenningur fái upplýsingar um ákvarðanir stjórnar og hvernig þær eru teknar. Ekki síst þess vegna var mjög óheppilegt að fundargerðir Orkuveitunnar voru árum saman lokaðar almenningi og fjölmiðlamönnum en fyrsta verk mitt í meirihluta stjórnar var að leggja fram og fá samþykkta tillögu um að þær yrðu allar birtar á heimasíðu fyrirtækisins. Nú hafa fundargerðirnar verið opinberar í fjögur ár og hefur slíkt gagnsæi tvímælalaust verið til bóta. Enginn heldur því lengur fram að slíkt gagnsæi hái starfsemi fyrirtækisins en á meðan fundargerðirnar voru leynilegar var því oft haldið fram og jafnvel í sölum borgarstjórnar.“

„Skrautlegir“ stjórnarfundir


Guðmundur Þóroddsson var forstjóri Orkuveitunnar en hann segir þetta um stjórnarfundina: „Stjórnarfundir OR voru oft mjög skrautlegir og þar var oft enn verið að útkljá þau mál sem deilt var um í borgarráði og oft var megnið af stjórn OR í því. Það var verið að skjóta pólitískar keilur. Í restina var þetta orðið mjög erfitt þar sem stjórnarmenn sátu með tölvur sínar á stjórnarfundum og láku fréttum í fjölmiðla og fóru misjafnlega rétt með. Á hinn bóginn var sæmileg sátt um flest mál og voru eflaust um 90% mála afgreidd án ágreinings enda flest málefni stjórnar OR ekki pólitísk.“

Sigrúnu Elsa Smáradóttir sat í stjórn OR fyrir hönd R-listans: „Ég hef setið í stjórnum annarra fyrirtækja sem tengjast ekki Reykjavíkurborg og mín reynsla þaðan er að stjórnendur leggi sig fram um að hlusta á sjónarmið allra stjórnarmanna og ná sameiginlegri niðurstöðu í mál. Þetta átti ekki við um Orkuveituna.“

Helga Jónsdóttir sat einnig í stjórn OR um tíma: „Ég hef aldrei verið í stjórn sem mér finnst hafa verið jafnfjarri því og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að skynja grundvallarleikreglur í stjórnun fyrirtækis, og skilin milli stjórnmála og fyrirtækjareksturs, með sama hætti og ég geri.“

Vill losna við stjórnmálamenn úr stjórn OR

Úttektarnefndin segir að nauðsynlegt sé að spyrja hvort eðlilegt sé að sveitarstjórnarmenn sitji í stjórn Orkuveitunnar. „Ávinningur er að takmarka hlutverk þeirra við að tryggja hagsmuni íbúa sveitarfélagsins og í umboði þeirra skilgreina hlutverk þessara opinberu fyrirtækja. Ókostur við að sveitarstjórnarmenn sitji í stjórnum fyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur, er að með því er ekki tryggt að í stjórn sé að finna nægjanlega faglega þekkingu og reynslu sem skiptir sérstaklega miklu máli þegar um er að ræða fyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Með því að sveitarstjórnarmenn sitji ekki í stjórn er líka girt að mestu fyrir möguleika á að pólitísk átök og óeining einkenni starf stjórnarinnar og verkefni stjórnar séu vanrækt samhliða eins og var á tímabilum í tilviki Orkuveitunnar.“

mbl.is