Má ekki endurtaka sig

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is

Umsvif Orkuveitu Reykjavíkur þurfa að byggja á skýrari sýn og setja þarf þéttari ramma um starfsemi þess, að sögn Dags B. Eggertssonar formanns borgarráðs. Dagur segir skýrslu úttektarnefndar lykilþátt í endurreisn OR.

„Skýrslan undirstrikar að þær aðgerðir sem við gripum til við upphaf kjörtímabilsins, og voru ekki léttbærar, hafi verið nauðsynlegar,“ segir Dagur og vísar þar í hækkun gjaldskrár, fækkunar starfsfólk og niðurskurðar í framkvæmdum. Auk þess hafi mikið umbótastarf verið unnið, s.s. með því að taka upp reglulegar áhættugreiningarskýrslur, setja á fót endurskoðunarnefnd o.fl.

Engu að síður segir Dagur að fara þurfi skipulega yfir það hvort það sem þegar sé búið að gera sé í samræmi við ábendingar nefndarinnar og hvort gera þurfi enn betur. „Mér finnst það í raun vera ábyrgð allra borgarfulltrúa að við göngum úr skugga um það að svona staða komi ekki upp aftur.“

Ástandið innan OR hafi m.a. mátt rekja til skorts á skýru skipulagi og ábyrgð sem hafi leitt til þess að vöxtur Orkuveitunnar var keyrður fram úr hófi. „Allt samfélagið þurfti að horfast í augu við að þetta stönduga fyrirtæki var komið á ystu brún og ég held að það hljóti allir að vera sammála um að það megi ekki endurtaka sig.“

Hvað segir þú um þær tillögur nefndarinnar að stjórn OR verði framvegis ekki skipuð stjórnmálamönnum?

„Ég er alveg sammála því að sá tími eigi að vera liðinn að borgarfulltrúar sitji í stjórn Orkuveitunnar [...] Mér finnst mjög eðlilegt að gera greinarmun á þessum hlutverkum, annars vegar stjórnmálamanna í borgarstjórn og hins vegar stjórnarmanna í OR. Þannig að fólk sé ekki að hafa eftirlit með sjálfu sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert