Álframleiðsla eykst í 900 þúsund tonn

mbl.is/ÞÖK

Fyrirhugað er að framkvæmdir við stækkun álversins á Grundartanga hefjist í vetur og standi yfir næstu fimm árin.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir áætlanir gera ráð fyrir því að framleiðslugeta fyrirtækisins aukist um 30-50 þúsund tonn á ári eftir að framkvæmdunum lýkur. Núverandi framleiðslugeta fyrirtækisins er um 284 þúsund tonn á ári og verður því allt að 330 þúsund tonn.

„Ferlið byrjaði árið 2007 þegar við hófum að auka strauminn. Þá var framleiðslan í um 260 þúsund tonn og því má segja að við höfum aukið hana um 24 þúsund tonn nú þegar,“ segir Ragnar.

Gert er ráð fyrir því að kostnaður við stækkunina muni verða rúmir 10 milljarðar. Fjármögnun verksins er tryggð með framlagi frá móðurfélagi Norðuráls, Century Al-uminum.

Um eitt hundrað manns munu vinna að framkvæmdunum en að sögn Ragnars starfa nú í álverinu um 530 manns.

Sækja þarf um starfsleyfi vegna framkvæmdanna

Norðurál þarf að sækja um aukið starfsleyfi þegar framleiðslugetan fer fram yfir 300 þúsund tonn á ári. Umhverfisstofnun mun taka umsóknina til afgreiðslu eftir að hún berst.

Að sögn Ragnars er orkan sem álverið notar samkvæmt samningum við Orkuveituna, Landsvirkjun og HS Orku.

Landsnet flytur rafmagn til álversins með þremur háspennulínum. Stendur fyrirtækið nú í framkvæmdum á Grundartangasvæði sem munu koma til með að auka flutningsgetu um u.þ.b. 70MW eða um nærri 10 prósent.

Framkvæmdunum lýkur á næsta ári og er áætlaður kostnaður við þær um tveir milljarðar króna. „Tilgangur er bæði að stuðla að stækkun álversins og að auka gæði orkuflutninganna,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum álframleiðenda eykst framleiðslugeta á áli úr um 830 þúsund tonnum í 860-880 þúsund tonn á ársgrundvelli, eftir breytingarnar á Grundartanga.

Jafnframt standa yfir framkvæmdir í álverinu í Straumsvík um stækkun upp á um 40 þúsund tonn. Á næstu árum verður því hægt að framleiða um 900 þúsund tonn.

Eins hafa verið uppi hugmyndir um stækkun álvers á Reyðarfirði um 180 þúsund tonn. Viðræður um fjármögnun eru þó enn á frumstigi.

Verði þau áform að veruleika fer framleiðslugeta landsins á áli yfir milljón tonn á ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert