Fjallaklifur og klettaklifur ekki það sama

Fjallgöngumenn í fjallaklifri.
Fjallgöngumenn í fjallaklifri. STR

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt rétt 33 ára klettaklifurkonu til greiðslu bóta úr hendi tryggingafélags síns, en konan slasaðist við klettaklifur í mars 2010. Í undanþáguákvæði tryggingafélagsins er ábyrgð vísað á bug vegna slysa sem verða við fjallaklifur en dómurinn taldi félagið þurfa að bera hallann af óskýrleika skilmálanna.

Konan var við klettaklifur í Adelaide í Suður Ástralíu þegar hún féll niður um sex metra og bar fyrir sig báðar hendur og slasaðist talsvert. Hún brotnaði á hægri hendi og vinstri úlnlið og þurfti að fara í skurðaðgerð vegna meiðslanna.

Tryggingafélag konunnar, Sjóvá-almennar tryggingar, hafnaði bótaskyldu úr slysatryggingu vegna slyssins. Úrskurðanefnd í vátryggingamálum staðfesti þá niðurstöðu og sagði konuna ekki eiga rétt á bótum þar sem slysið væri undanskilið bótaskyldu samkvæmt skilmálum tryggingafélagsins.

Undanþáguákvæðið hljómar þannig, að Sjóvá bæti ekki: „Slys sem verða í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki.“

Í niðurstöðu héraðsdóms er klettaklifri lýst og svo segir: „Dómurinn telur ljóst að fjallaklifur, sem felst í því að klífa fjöll, og klettaklifur er ekki sama háttsemin eða íþróttin, þótt í báðum tilvikum endi orðin á „klifur“.“

Þá segir að tryggingafélaginu var í lófa lagið að hafa upptalninguna ítarlegri, en ganga verði út frá því að félaginu sé kunnur munurinn á fjallaklifri og klettaklifri. „Það dugar [Sjóvá] skammt að vísa til þess að ákvæðið eigi við „hvers konar“ fjallaklifur með því að klettaklifur og fjallaklifur er sitt hvor hluturinn. Þá skiptir heldur ekki máli tilvitnun stefnda til bjargsigs. Þar er um aðra háttsemi að ræða en í klettaklifri.“

Var því krafa konunnar tekin til greina og viðurkenndur réttur hennar til greiðslu bóta.

mbl.is