Vilja merktar vörur frá landnemabyggðum

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem 16 þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokksins, Hreyfingarinnar og Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi en í greinargerð segir að viðskipti á milli Íslands og Ísraels hafi farið vaxandi. Þannig hafi þau nær tvöfaldast á síðustu fimm árum. Aðalflutningsmaður er Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

„Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis – en þá er miðað við landamæri ríkisins frá 1948 – heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, en þær eru einkum á vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar,“ segir í greinargerðinni.

Þessum byggðum hafi farið fjölgandi síðastliðin ár og sé íbúafjöldi í þeim nú kominn yfir hálfa milljón jafnvel þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana frá Sameinuðu þjóðunum. Þessi þróun hafi skaðað lífskjör Palestínumanna en ekki megi heldur gleyma að þær séu mjög umdeildar á meðal ísraelskra borgara.

„Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast þó fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Af þeim sökum hafa þær reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem reglulega kemur til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá af ræktarlöndum sínum,“ segir ennfremur.

Þá segir að Ísland hafi aldrei frekar en SÞ viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. „Það ætti því ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar í landnemabyggðunum.“

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert