Hvetja kjósendur til að segja nei

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sent öllum félagsmönnum í Sjálfstæðisflokknum bréf þar sem hann hvetur þá til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og segja nei. Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, ritar grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hún hvetur kjósendur sömuleiðis til að mæta og segja nei.

Bjarni sagðist verða var við að margir séu að velta því fyrir sér hvort þörf sé á því að kjósa um næstu helgi.  „Mín afstaða er sú að fólk ætti að mæta á kjörstað, jafnvel þótt ekki sé um eiginlega þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða, þar sem mál er til lykta leitt, heldur ráðgefandi kosningu.  Meginástæðan er sú að stjórnskipunin er mikilvæg og það er ábyrgðarhluti að bregðast ekki við, nýta ekki hvert tækifæri til að koma í veg fyrir fúsk þegar verið er að breyta stjórnarskránni,“ segir Bjarni í bréfi sem hann sendi til um 50 þúsund flokksmanna.

Bjarni segir í bréfinu að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki andvígur öllum breytingum á stjórnarskránni. Hann nefnir þrjár breytingar og viðbætur á stjórnarskránni sem hann telur skynsamlegt að vinna að á næstu misserum:

  1. Nýtt ákvæði um þjóðareign á auðlindum í nátttúru Íslands sem leggi áherslu á sjálfbæra nýtingu slíkra gæða til hagsbóta öllum landsmönnum. Tillögu stjórnlagaráðs um nýtt auðlindaákvæði ber að hafna. Þar er hugtakið þjóðareign skilgreint sem ný tegund ríkiseignar í lagalegum loftfimleikum sem Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor í lögum, hefur kallað merkingarlaust lýðskrum.
  2. Nýtt ákvæði um rétt tiltekins hlutfalls kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvarðanir Alþingis.
  3. Endurskoðun á ákvæðum stjórnarskrár er varða embætti forseta Íslands. Hér ætti að vera meginmarkmiðið að skýra betur að stjórnlögum ábyrgð forsetans og afmörkun þess valds sem forsetanum er falið.

„Það er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir allar breytingar á stjórnarskránni. Það er aftur á móti ljóst að það er engin þörf fyrir að umskrifa hvert einasta ákvæði og að um slíkt offors verður aldrei sátt. Ég hvet því alla sjálfstæðismenn til að mæta á kjörstað og segja nei við því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá,“ segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert