Andrea Ólafsdóttir ráðin kosningastjóri Dögunar

Gengið hefur verið frá ráðningu Andreu Jóhönnu Ólafsdóttur í stöðu kosningastjóra Dögunar. Andrea er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum auk stjórnunar. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri á frístundaheimili hjá Reykjavíkurborg.  Andrea hefur starfað sem sjálfboðaliði fyrir Amnesty International, Rauða krossinn, hefur tekið þátt í baráttu fyrir umhverfisvernd og er fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir í tilkynningu frá Dögun.

Einnig hefur Friðrik Þór Guðmundsson verið ráðinn ritstjóri. Hann er með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu af ritstörfum og blaðamennsku. Undanfarin ár hefur Friðrik Þór starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands, á meistarastigi í blaða- og fréttamennsku. Friðrik Þór hefur átt sæti í stjórn Samtaka vistheimilabarna, siðanefnd Blaðamannafélags Íslands og er fyrrverandi formaður Borgarahreyfingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert