Ætlar að ganga ein á Suðurpólinn

Vilborg Arna Gissurardóttir ætlar að ganga ein á Suðurpólinn, alls 1140 km leið. Leiðangur hennar hefst um miðjan nóvember og hefur fengið nafnið LÍFs-spor þar sem Vilborg mun safna áheitum fyrir styrktarfélagið LÍF.

„Þetta verður gríðarlega krefjandi verkefni en ég er mjög spennt að takast á við það,” segir Vilborg sem gekk yfir Grænland í vor, í fréttatilkynningu. Hún flýgur til Punta Arenas í Chile þar sem hún mun dvelja í nokkra daga áður en hún flýgur í Hercules vél á Suðurskautslandið. Þar mun hún dvelja í búðum ALE þangað til flogið verður með hana til strandarinnar við Ronnie íshelluna. Upphaf leiðarinnar er við Hercules Inlet. Leiðin er 1140 km og segir hún að búast megi við miklum mótvindi, erfiðu skíðafæri og rifsköflum.

„Áætlaðir göngudagar eru 50 talsins, en til þess að ná því þarf að ganga að meðaltali 22 km á dag. Búast má við styttri vegalengdum í byrjun á meðan ég er að venjast aðstæðum og sleðinn er fulllestaður. Eftir því sem gengur á birgðirnar verður sleðinn léttari og gera má ráð fyrir að hann léttist um 1 kg á dag. Þegar líða tekur á gönguna ganga dagsverkin einnig hraðar,” segir Vilborg í tilkynningunni.

Vel klædd og með orkuríkan mat

Hún verður með tvo sleða fyrir vistir og útbúnað, sem vega 100 kg. ,,Miklu máli skiptir að fara vel útbúinn í leiðangur sem þennan og að geta brugðist við hinum ýmsu aðstæðum sem upp geta komið. Ég verð vel klædd í fatnaði frá 66°NORÐUR sem hefur styrkt mig mikið m.a. í Grænlandsleiðangrinum sl vor. Maturinn þarf að vera orkuríkur, fara vel í maga og má alls ekki vega mikið. Mataræðið einkennist af þurrmati, fitu, harðfisk, múslí, kexi og súkkulaði,” segir hún.

Vilborg segir að undirbúningur að leiðangri sem þessum taki mikinn tíma og huga þurfi að mörgum þáttum sem tengjast búnaði, vistum, leiðinni sjálfri og ekki síst þjálfun, bæði líkamlegri og andlegri.

mbl.is